spot_img
HomeFréttirNjarðvík tyllti sér á topp Subwaydeildarinnar

Njarðvík tyllti sér á topp Subwaydeildarinnar

Njarðvík hafði betur í toppslag Subwaydeildar kvenna í kvöld þegar nágrannar þeirra úr Keflavík mættu í Ljónagryfjuna. Lokatölur reyndust 77-70 og tveir stórir Njarðvíkurþristar frá Diane Diéné Oumou fóru langt með leikinn.

Aliyah Collier var stigahæst Njarðvíkinga í kvöld með 27 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar en næst henni var Diane með 19 stig og 9 fráköst. Lavina De Silva skráði sig líka í tvennuklúbbinn fyrir Njarðvík með 14 stig og 12 fráköst. Hjá Keflavík var Daniela Wallen með 23 stig og 14 fráköst og Anna Ingunn Svansdóttir bætti við 20 stigum, 3 fráköstum og 3 stoðsnedingum.

Það helsta

Mikil barátta og jafnræði einkenndi fyrri hálfleikinn þar sem Njarðvíkingar leiddu 18-16 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta fóru gestirnir vel af stað og komust í 29-31 þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Njarðvíkingar áttu hinsvegar lokasprettinn með 11-4 hvelli sem lauk með flautuþrist frá Kamillu Sól og heimakonur leiddu því 40-35 í hálfleik. Collier strax búin að landa tvennu í fyrri hálfleik með 13 stig og 10 fráköst og þær Diane og Kamilla báðar með 8 stig. Anna Ingunn var með 13 stig hjá Keflavík en Daniela og Tunde báðar með 6.


Keflvíkingar komu grimmir inn í síðari hálfleik og gerðu sjö stig í röð en því áhlaupi var svarað með 11-0 skvettu frá Njarðvík. Daniela hjá Keflavík og Vilborg í Njarðvík fengu báðar sínar fjórðu villur í leikhlutanum og urðu að fara sér varlega það sem eftir lifði. Njarðvík leiddi 57-51 að loknum þriðja. Snemma í fjórða leikhluta náði Keflavík að minnka muninn í 62-60 en þá sleit Njarðvík sig frá að nýju í 70-60 en þar komu sterkir inn tveir stórir þristar frá Diane Diéné Oumou. Þetta reyndist Keflavík um megn og Njarðvíkingar tylltu sér í toppsæti Subwaydeildarinnar með 77-70 sigri.

Myndasafn
Tölfræði leiks

Næst á dagskrá
Talsvert er í næsta leik beggja liða eða 21. nóvember en þá mætast Njarðvík og Haukar í Ljónagryfjunni en Keflavík heimsækir Skallagrím í Borgarnes.

Fréttir
- Auglýsing -