spot_img
HomeFréttirNjarðvík tók tvö rándýr stig í Schenkerhöllinni

Njarðvík tók tvö rándýr stig í Schenkerhöllinni

Njarðvíkingar gerðu í kvöld góða ferð í Schenkerhöllina í Hafnarfirði er þeir lögðu Hauka 75-85 í Iceland Express deild karla. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Njarðvíkingar lentu undir 73-71 þegar skammt var til leiksloka. Grænir skiptu þá um gír og rúlluðu yfir Hauka 14-2 á lokasprettinum og fögnuðu innilega tveimur mikilvægum stigum. Haukamenn að sama skapi komnir í bullandi vandræði með fjögur stig í fallsæti.
Njarðvíkingar byrjuðu með látum og komust í 2-8 en heimamenn úr Hafnarfirði voru ekki lengi að jafna sig og náðu forystunni 12-10 þegar Chris Smith braust upp að körfunni, skoraði og fékk villu að auki. Góð barátta var í leiknum strax á upphafsmínútunum enda mikið í húfi hjá báðum liðum sem beittu fyrir sig svæðisvörn í upphafi.
 
Hjörtur Hrafn Einarsson kom svellkaldur inn af Njarðvíkurbekknum og smellti niður þrist sem kom Njarðvík í 16-18 forystu og grænir leiddu svo 19-24 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Kempurnar Páll Kristinsson (UMFN) og Marel Örn Guðlaugsson (Haukar) snéru aftur inn á parketið í kvöld, báðir komu þeir inn í upphafi annars leikhluta og komust vel frá sínu í kvöld. Marel átti eftir að minna hressilega á sig síðar í leiknum!
 
Heimamenn opnuðu annan leikhluta 6-0 og komust yfir 25-24, Chris Smith var beittur hjá Haukum og Hayward Fain átti sínar rispur á meðan Njarðvíkingar leituðu mikið inn á Cameron Echols sem hefur oft verið með betri nýtingu í kvöld, 6 af 15 í teignum í fyrri hálfleik.
 
Chris Smith kom Haukum í 38-37 með þriggja stiga körfu þegar rúm mínúta var til hálfleiks en liðin gengu svo jöfn til leikhlés í stöðunni 40-40 og ekkert nema spennandi síðari hálfleikur framundan.
 
Chris Smith var með 23 stig og 9 fráköst í hálfleik hjá Haukum og Hayward Fain 10 stig. Hjá Njarðvíkingum var Cameron Echols með 12 stig og 10 fráköst og Travis Holmes 10 stig.
 
Gestirnir úr Njarðvík mættu ferskari inn í síðari hálfleikinn og komust í 42-48 þegar hinn ungi og efnilegi Maciej Baginski setti niður þrist. Travis Holmes mætti snöggtum síðar með annan slíkan og Njarðvíkingar leiddu 44-51. Pétur Rúðrík lét sína menn í Haukum heyra það og var á þessum upphafsmínútum síðari hálfleiks síður en svo ánægður með vinnsluna á sínum mönnum í svæðisvörninni.
 
Rúnar Ingi Erlingsson barðist vel í Njarðvíkurliðinu í þriðja leikhluta og kom grænum í 55-58 með þriggja stiga körfu en Haukar áttu lokasprettinn og jöfnuðu metin í 59-59 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Á upphafsmínútum fjórða leikhluta minnti Marel Örn Guðlaugsson á sig, sannkallaður dreifbýlisþristur leit dagsins ljós hjá kappanum sem jafnaði metin 63-63 og stuttu síðar var Marel aftur á ferðinni og kom Haukum í 66-65 með annarri þriggja stiga körfu. Lengi lifir í gömlum glæðum!
 
Allt stefndi í rafmagnaðan lokasprett eða þangað til Chris Smith fékk sína fimmtu villu í liði Hauka. Þá var eins og botninn hefði dottið úr leik Hauka, enn einn endaspretturinn sem rennur þeim úr greipum þetta tímabilið. Haukar virtust til alls líklegir í stöðunni 73-71 eftir þriggja stiga körfu frá Emil Barja sem barðist af miklum krafti fyrir Hauka í kvöld.
 
Hjörtur Hrafn Einarsson svaraði í sömu mynt fyrir Njarðvík sem komst í 73-74 og grænir tóku á rás, voru mun ákveðnari á lokasprettinum og kláruðu leikinn 75-85. Með sigrinum komst Njarðvík upp í 9. sæti deildarinnar og settu Fjölni í 10. sætið sem eiga þó leik til góða gegn Grindavík annað kvöld. Haukar verma áfram ellefta og annað af tveimur fallsætum deildarinnar með 4 stig.
 
Cameron Echols var með myndarlega tvennu í kvöld, 26 stig og 20 fráköst en fór ansi oft ógætilega með færin sín í teignum. Travis Holmes bætti við 24 stigum og 7 fráköstum. Elvar Friðriksson (9 stoðs.) og Rúnar Ingi Erlingsson áttu fínar rispur og prímusmótorinn Ólafur Helgi Jónsson gerði 11 stig, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þá átti Hjörtur Hrafn Einarsson einnig lipra takta fyrir Njarðvík.
 
Hjá Haukum var blóðugt að missa Smith af velli með fimm villur en hann var þeirra besti maður í kvöld með 29 stig og 19 fráköst. Hayward Fain bætti við 17 stigum, 7 fráköstum og 7 stoðsendingum. Emil Barja barðist vel með 8 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og Marel Örn Guðlaugsson, leikjahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar frá upphafi, gerði 6 stig í liði Hauka.
 
 
Heildarskor
 
Haukar-Njarðvík 75-85 (19-24, 21-16, 19-19, 16-26)
 
Haukar: Christopher Smith 29/19 fráköst/6 varin skot, Hayward Fain 17/7 fráköst/7 stoðsendingar, Emil Barja 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Marel Örn Guðlaugsson 6, Helgi Björn Einarsson 6, Davíð Páll Hermannsson 5, Alik Joseph-Pauline 4/4 fráköst/6 stoðsendingar, Óskar Ingi Magnússon 0, Örn Sigurðarson 0, Steinar Aronsson 0, Haukur Óskarsson 0, Guðmundur Kári Sævarsson 0.
 
Njarðvík: Cameron Echols 26/20 fráköst, Travis Holmes 24/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 11/3 varin skot, Hjörtur Hrafn Einarsson 8/4 fráköst, Elvar Már Friðriksson 6/9 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 5, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Óli Ragnar Alexandersson 1, Páll Kristinsson 1, Oddur Birnir Pétursson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jón Þór Eyþórsson
 
Fréttir
- Auglýsing -