spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaNjarðvík tók forystuna gegn Ármanni

Njarðvík tók forystuna gegn Ármanni

Njarðvík tók í kvöld 1-0 forystu gegn Ármanni í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Í fyrstu leit út fyrir að Njarðvík ætti þægilegt kvöld í vændum en gestirnir bitu frá sér. Lokatölur reyndust 67-42 Njarðvík í vil þar sem Kamilla Sól Viktorsdóttir fór fyrir Njarðvíkingum með 18 stig og 2 fráköst. Jónína Þórdís Karlsdóttir og Kristín Alda Jörgensdóttir voru báðar með 11 stig í liði gestanna og báðar með tvennu því Jónína tók 11 fráköst og Kristín 13.

Heimakonur í Njarðvík opnuðu leikinnn 6-2 og leiddu svo 12-4 eftir sjö mínútna leik en gestunum í Ármanni gekk illa að prjóna sig í gegnum vörn Njarðvíkinga í upphafi leiks. Heimakonur leiddu 18-6 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Chelsea Jennings var komin með 9 stig í Njarðvíkurliðinu.

Eftir hrollkalda byrjun bitu Ármenningar frá sér í öðrum leikhluta, aðallega fyrir tilstilli Jónínu Þórdísar og liprar varnarvinnu, Ármann minnkaði muninn í 24-14 þegar sex mínútur voru til hálfleiks. Þegar Ármenningar virtust vera að ranka við sér kom Lára Ásgeirsdóttir af tréverki Njarðvíkur og smellti niður tveimur þristum og breytti stöðunni í 30-17.

Ármenningar létu enn ekki slá sig út af laginu og færðu sig nærri 34-26 með góðum varnarleik og hungri í hvert einasta sóknarfrákast. Þessi áræðni skilaði þeim 17-24 spretti í leikhlutanum en Njarðvík leiddi engu að síður 35-30 í hálfleik.

CJ Jennings var með 9 stig í liði Njarðvíkinga í hálfleik en Jónína Þórdís var með 7 stig í liði Ármanns.

Njarðvíkingar mættu mun einbeittari á varnarendanum til síðari hálfleiks og juku muninn í 49-36 eftir rúmlega fimm mínútna leik í þriðja leikhluta. Kamilla Sól var að finna sig í skotunum fyrir Njarðvík á meðan Chelsea Jennings lét lítið fyrir sér fara á sóknarenda Njarðvíkinga með aðeins fjögur stig frá því fyrsta leikhluta lauk. Njarðvíkingar leiddu 51-40 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og útlit fyrir spennandi lokasprett.

Júlía Scheving kom Njarðvík í 59-40 með þrist í upphafi fjórða leikhluta og þá varð ljóst að Ármenningar sem höfðu til þessa barist eins og berserkir ættu ekki meira á tanknum og von um spennuslag farin. Frammistaða gestanna var leidd áfram af Jónínu Þórdísi, Telmu Lind og Kristínu Öldu  en það dugði ekki að sinni. Njarðvíkingar voru einráðir í fjórða leikhluta og sigldu sigrinum örugglega í höfn, 67-42.

Það reyndist Ármenningum dýrkeypt að mæta á hælunum til leiks en að sama skapi börðu þær sér leið aftur inn í leikinn en það tók mikla orku. Njarðvíkingar hinsvegar slökuðu á klónni eftir góðan opnunarleikhluta og voru drykklanga stund að vinda ofan af þeirri værukærð en sýndu sitt rétta andlit á lokasprettinum.

Staðan í einvíginu er því 1-0 fyrir Njarðvík og annar leikurinn í seríunni fer fram í Kennó þann 22. maí kl. 18.00.

  • Lára Ösp Ásgeirsdóttir lék ekki með Njarðvík í kvöld sökum meiðsla. Lára meiddist í fyrsta leiknum gegn Vestra í 8-liða úrslitum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Umfjöllun / Jón Björn

Viðtöl / Jón Björn & Skúli Björgvin

Fréttir
- Auglýsing -