spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaNjarðvík svarar dómsdagsspám með góðum sigri

Njarðvík svarar dómsdagsspám með góðum sigri

Þá sitjum við blessunarlega ekki undir eintómu tuðrusparki lengur – móðir allra íþrótta rúllaði af stað í kvöld! Undirritaður ók skjálfandi af tilhlökkun í Vesturbæinn til að berja augum leik heimamanna og Njarðvíkinga. Auðvitað mátti búast við einhverjum skjálfta í leikmönnum sjálfum og ólíklegt að besti leikur tímabilsins færi fram í fyrstu umferð…en þó má alltaf búast við að körfuboltaleikur verði skemmtilegur og við skulum dusta rykið af kúlunni góðu…

Spádómskúlan: Í móðukenndu gleri spádómskúlunnar má sjá óljós merki um heimasigur. KR-ingar hafa árum saman unnið flesta leiki í upphafi móts á einstaklega ósannfærandi hátt, en sigur er sigur og skilar heilum tveimur stigum. Á þessari reglu verður engin breyting í kvöld, 92-81 verða lokatölur.

Byrjunarlið:  

KR: Matti, Kobbi, Brilli, Ante, Roberts

Njarðvík: Zvonko, Ryan, Rodney, Mario, Logi

Gangur leiksins

Njarðvíkingar hófu leik betur og Logi opnaði tímabilið fyrir sína menn með þristi eftir nákvæmlega eina mínútu. KR-bræður svöruðu skömmu síðar, Matti með stoðsendinguna og Jakob með þristinn. Gestirnir héngu á nokkurra stiga forystu fram eftir leikhlutanum, einkum fyrir tilstilli Zvonko Buljan en hann lítur út fyrir að vera sæmilega liðtækur í körfubolta. Matti kom þó sínum mönnum yfir 20-19 seint í leikhlutanum en Maciek endaði leikhlutann með þristi og staðan 22-26 eftir einn.

Ólafur Helgi kom gestunum í 22-31 snemma í öðrum leikhluta með vörumerkis-framanáhringinnspjaldiðofaní-þristi! Níu stig fer að nálgast alvöru forystu en Roberts Stumbris tók þá til sinna ráða fyrir KR-inga og smellti niður hverjum þristinum á fætur öðrum og þegar 3 mínútur og hálfri betur voru eftir af leikhlutanum var staðan 40-41. Liðin skiptust svo á körfum en Rodney fór að fordæmi liðsfélaga síns og smellti flautukörfu fyrir hléið, staðan 47-52.

Heimamenn gerðu sig líklega til að snúa leiknum sér í vil í byrjun seinni hálfleiks. Matti setti snögg fjögur stig og kom KR-ingum 53-52 yfir. Klaufaskapur sóknarmegin hjá heimamönnum afhendi gestunum þó forskotið enn á ný og leiddu þeir með nokkrum stigum fram í miðjan leikhlutann en þá náðu KR-ingar að jafna í 58-58. Á þessum kafla var sókn gestanna frekar stirð og/eða vörn KR-inga öllu hreyfanlegri en meistari Logi henti þá í neyðarskotsþrist og Óli Helgi setti svo annan í næstu sókn, að þessu sinni ekkert nema net. Það virtist smyrja sókn gestanna vel því sóknin þar á eftir var YFIRGENGILEGA GLÆSILEG en hún endaði með Maciek-þristi úr horninu eftir geggjaða boltahreyfingu og staðan 63-71. Eyjó kom inn af bekknum fyrir KR-inga og skilaði góðu verki í leikhlutanum og ásamt Matta minnkuðu heimamenn muninn fyrir lok leikhlutans í nánast ekki neitt, 68-71.

Á fyrstu mínútum fjórða leikhluta hélst sami taktur í leiknum, gestirnir voru áfram með nokkurra stiga varaforða. Það var svo um miðjan leikhlutann sem Maciek setti niður sinn annan þrist í leikhlutanum og kom Njarðvíkingum í skjól við 10 stiga múrinn góða, 72-82. Í raun reyndist það vera mikilvægasta karfa leiksins því tveimur og hálfri mínútu síðar var staðan 72-84, 3 mínútur eftir og útlitið dökkt fyrir heimamenn. Jafnvel með Brilla stórskyttu gekk nákvæmlega ekki neitt hjá KR-ingum að brúa bilið og Njarðvíkingar gátu innbyrt stórgóðan sigur áhyggjulaust að lokum. Lokatölur 80-92.

Menn leiksins

Maciek og Zvonko spiluðu frábærlega í þessum leik. Zvonko skoraði 25 stig og tók 11 fráköst og Maciek skoraði 22 stig og gaf 4 stoðsendingar.

Matti stóð upp úr hjá KR og virðist vera í afar góðu standi. Hann skoraði 21 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 4 fráköst.

Kjarninn

KR-ingar léku án Bandaríkjamanns og Bjössi gat ekki leikið vegna meiðsla og munar um minna. Liðið hefur ekki verið lengi saman eins og Darri benti á í viðtali eftir leikinn og erlendir leikmenn liðsins nýkomnir. Ekki er ástæða til að lesa of mikið í fyrsta leik tímabilsins en það er ekkert sem breytir því að KR-ingar vilja auðvitað alltaf vinna, ekki síst á heimavelli.

Þrátt fyrir ofannefnda varnagla tók Einar Árni undir það eftir leik að sigurinn væri góður. Það er jákvætt að sjá Maciek spila svona vel og Zvonko er nothæfur leikmaður eins og fram hefur komið! Rodney spilaði ágætlega en Ryan var víst eitthvað veikur og því ástæðulaust að velta hans frammistöðu fyrir sér. Það er því ýmis jákvæð merki að sjá eftir þennan fyrsta leik hjá Njarðvík en auðvitað margt hægt að bæta líka eins og hjá öllum liðum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -