spot_img
HomeFréttirNjarðvík skrapp í 3. sætið með sigri í Fjósinu

Njarðvík skrapp í 3. sætið með sigri í Fjósinu

Njarðvíkingar eygðu möguleika á að lauma sér í 3.sæti Dominos deildarinn með sigri er þeir mættu í höfuðstað Vesturlands í kvöld. Borgnesingar hins vegar í harðri baráttu í óæðri enda deildarinnar með 8 stig og hver einasti sigur því rándýr fyrir liðið. Eitthvað var stuðningsmannasveit Fjósamanna róleg framan af og einhverjir af þeirra helstu bústólpum seinir fyrir. Hafa líklega tafist við mjaltir ellegar gegningar.
 
 
En hvað sem því leið fór leikurinn af stað á sínum tíma. Liðin skiptust á að skora fyrstu andartökin í leiknum. Fljótlega náð þó gestirnir ákveðnu frumkvæði í leiknum. Leiddir áfram af Elvari Má og Tracy Smith náðu þeir forskoti og leiddu að loknum fjórðungs leik 21-28.
 
Skallarnir sem hafa verið sjóðandi heitir í þristum í síðustu leikjum virtust heillum horfnir í langskotunum og sóknarleikurinn gekk brösuglega. Njarðvíkingar héldu sínu striki og þrátt fyrir að Sköllum tækist að minnka muninn í 4 stig um miðjan 2.leikhluta, bitu gestirnir aftur frá sér og leiddu í hálfleik 42-56.
 
Sóknarleikur beggja liða var alveg úti á túni í upphafi síðari hálfleiks. Lítið gekk að koma tuðrunni rétta leið og hélst gestunum á góðu forskoti um sinn. Skallagrímsmenn hófu að beita svæðisvörn sem virtist slá gestina útaf laginu í sókninni. En Sköllunum tókst illa að færa sér það í nyt í sókninni. Elvar hélt áfram að mata samherja sína og sjálfan sig. Með þolinmæði náðu Suðurnesjamenn tökum á sóknarleiknum aftur og þegar koma að 4.leikhluta höfðu þeir náð 18 stiga forskoti 62-80. Ljóst var að eftirleikurinn yrði heimamönnum erfiður.
 
Heimamenn voru heillum horfnir og andlausir í upphafi 4.leikhluta. Njarðvík nýtti sér það og náði um stund 25 stiga forskoti. Fátt markvert gerðist í leiknum þar til sunnanmenn tóku uppá því með 20 stiga forskot að fara að tuða í dómurum leiksins og uppskáru með því tæknivillur sem heimamenn nýttu sér, en það dugði þó skammt og Njarðvíkingar smeygðu sér í 3. sæti deildarinnar um sinn með 84-99 sigri.
 
Logi Gunnarsson var stigahæstur gestanna með 27 stig og Tracy Smith gerði 24 aukinheldur að taka 13 fráköst. Elvar Már gerði 22 stig og spreðaði 11 stoðsendingum.
Hjá heimamönnum, sem hittu skelfilega fyrir utan línuna, 1 af 18 í þristum, var Ben Curtis Smith með 27 stig, Palli 22 og Grétar 16.
 
 
Umfjöllun – Ragnar Gunnarsson
  
Fréttir
- Auglýsing -