spot_img
HomeFréttirNjarðvík skaust upp fyrir Grindavík með sigri í Röstinni (Umfjöllun)

Njarðvík skaust upp fyrir Grindavík með sigri í Röstinni (Umfjöllun)

23:17
{mosimage}

(Miðherjabarátta! Friðrik Stefánsson lætur Igor Beljanski finna vel fyrir sér) 

Damon Bailey gerði 35 stig og tók 11 fráköst þegar Njarðvík lagði Grindavík 92-107 í Röstinni í kvöld og komust þar með í 3. sæti Iceland Express deildarinnar. Liðin eru nú jöfn að stigum í deildinni, bæði með 14 stig en Grindavík á leik til góða á Njarðvík. Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 24 stig og 7 fráköst en maður kvöldsins var vafalítið Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson sem reyndist Grindvíkingum erfiður á báðum endum vallarins. Jóhann gerði 16 stig í leiknum, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og barðist af miklum móð í Njarðvíkurvörninni. 

Fjölmenni mætti í Röstina til að fylgjast með grannaslag liðanna sem fór vel af stað. Damon Bailey opnaði leikinn með þriggja stiga körfu og Páll Axel jafnaði metin með þremur vítum eftir að Brenton Birmingham braut á honum í þriggja stiga skoti. Grindavík komst í 20-14 á upphafsmínútunum og skiptu við það í svæðisvörn sem virkaði þokkalega. Leikhlutanum lauk þó í stöðunni 31-26 heimamönnum í vil eftir að Brenton Birmingham setti niður þriggja stiga körfu þegar 2 sekúndur voru til loka leikhlutans.  

Athygli vakti að hinn reyndi Sverrir Þór Sverrisson hélt landsliðsmanninum Herði Axeli Vilhjálmssyni út úr byrjunarliði Njarðvíkur í kvöld en sá síðarnefndi átti eftir að láta til sín taka þrátt fyrir að hefja leik á tréverkinu. Þorleifur Ólafsson var einnig á bekknum í upphafi leiks og var fremur ærslafullur er hann komst á völlinn og nældi sér strax í tvær villur. 

Í öðrum leikhluta var sóknarleikurinn í fyrirrúmi og gerði Egill Jónsson fyrstu fimm stig Njarðvíkur í leikhlutanum. Hörður Axel kom grimmur til leiks í öðrum leikhluta og eftir fimm stig í röð frá honum var staðan orðin 44-45 Njarðvík í vil. Þorleifur Ólafsson fékk skömmu síðar sína þriðju villu en Grindvíkingar voru að gera Njarðvíkingum lífið leitt með ógrynni af hraðaupphlaupskörfum.  

Þegar 30 sekúndur voru til hálfleiks kom Brenton Njarðvík í 53-56 með góðum þrist en Jonathan Griffin svaraði í næstu sókn og jafnaði metin með þrist 56-56 og þannig stóðu leikar í hálfleik. 

Igor Beljanski, fyrrum leikmaður UMFN og nú miðherji Grindavíkur, fékk snemma sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og hélt á tréverkið. Brenton kom Njarðvík í 60-69 með þriggja stiga körfu og allt frá þessum tímapunkti tóku Njarðvíkingar völdin á vellinum. Þeir Damon, Brenton og Jóhann fóru fremstir í Njarðvíkurliðinu sem þétti vörnina og áttu heimamenn í mesta basli með að brjóta sér leið upp að körfunni. Jóhann Árni jók muninn í 63-74 með þrist og að loknum leikhlutanum var staðan orðin 71-85 fyrir Njarðvík.

{mosimage}

(Jóhann Árni var sterkur í Njarðvíkurliðinu í kvöld) 

Gestirnir lokuðu á hraðaupphlaup heimamanna og það virtist setja Grindavík út af laginu.  Í fjórða leikhluta var staðan orðin 76-100 Njarðvík í vil þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og sigurinn í höfn. Það er því óhætt að segja að áhorfendur hafi ekki fengið þann spennuleik í kvöld sem margir vonuðust eftir þó fyrri hálfleikur hafi vissulega gefið tilefni fyrir slíku. 

Lokatölur eins og áður greinir 92-107 Njarðvík í vil og hafa Grindvíkingar tapað báðum grannarimmum sínum í deildinni það sem af er þessari leiktíð, fyrst gegn Keflavík og nú gegn Njarðvík. Brenton Birmingham gerði 23 stig í liði Njarðvíkur og tók 6 fráköst og gaf 8 stoðsendingar en hann Damon og Jóhann voru litríkir hjá Njarðvík. Adam Darboe gerði 21 stig fyrir Grindavík og var með 6 stoðsendingar og Jonathan Griffin bætti við 20 stigum.  

Tölfræði leiksins 

Gangur leiksins: 

5-5, 20-14,31-26
40-35, 46-50, 56-56
60-69, 63-74, 71-85
74-95, 86-105, 92-107 

[email protected]

{mosimage}

(Brenton Birmingham til varnar gegn Jonathan Griffin)

Fréttir
- Auglýsing -