spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaNjarðvík sigraði ÍR örugglega í Seljaskóla

Njarðvík sigraði ÍR örugglega í Seljaskóla

ÍR og Njarðvík mættust í kvöld í Seljaskóla í fyrstu umferð Domino´s deildar karla. Þessi lið öttu kappi í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð þar sem ÍR-ingar slógu þá grænklæddu úr keppni og fóru alla leið í úrslitarimmuna þar sem þeir svo töpuðu fyrir KR.

En nú er nýtt mót og ný markmið. Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi ÍR í sumar og hafa margir mikilvægir leikmenn yfirgefið félagið. En það kemur maður í manns stað og því voru mörg ný andlit í leikmannahópnum í kvöld. Njarðvík var spáð fimmta sæti í vetur í spá forráðamanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni en ÍR var spáð tíunda sæti.

Byrjunarlið kvöldsins voru svona.

ÍR: Evan Singletary, Trausti Eiríksson, Collin Pryor, Sæþór Kristjánsson og Georgi Boyanov.

Þjálfari: Borche Illievski.

Njarðvík: Kristinn Pálsson, Logi Gunnarsson, Elvaldas Zabas, Mario Matasovic og Wayne Ernest Martin Jr.

Þjálfari: Einar Árni Jóhannsson

Dómarar: Leifur S. Garðarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Aron Rúnarsson

Það var ágætlega mætt í Hertz-hellinn í kvöld og voru margir Njarðvíkingar mættir til að styðja sína menn. Njarðvík skoraði fyrstu stig kvöldsins og var leikurinn jafn fyrstu mínúturnar en um miðjan fyrsta leikhluta náðu Njarðvíkingar 8 stiga forskoti sem þeir héldu út leikhlutann. Njarðvíkingar leiddu allan annan leikhluta líka og náðu mest 14 stiga forskoti. ÍR-ingar gerðu nokkur áhlaup þar sem þeir minnkuðu forystu Njarðvíkur en þeir grænklæddu gáfu þá jafnharðan í og juku forystuna á nýjan leik. Staðan í hálfleik var 33-44 Njarðvík í vil.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Njarðvík var alltaf með 8-10 stiga forskot og hleypti ÍR aldrei nálægt sér. Svo fór að Njarðvík vann nokkuð öruggan sigur 72-85.

Njarðvík var mun betra í kvöld

Njarðvík voru mun öflugri í kvöld og voru skipulagðari í sínum sóknaraðgerðum. Wayne Ernest Martin Jr. var mjög öflugur í liði Njarðvíkur og áttu ÍR-ingar í miklu basli með hann í kvöld. Hann skoraði mikið undir körfunni þar sem ÍR-ingar réðu illa við hann. Elvaldas Zabas var sprækur hjá Njarðvík og stjórnaði leiknum vel. Kristinn Pálsson átti einnig góðan leik. Stigahæstir hjá Njarðvík voru Wayne Martin með 23 stig, Elvaldas 16 og Kristinn P. 15 stig.

ÍR-ingar áttu fæstir góðan leik í kvöld. Þeir voru nokkuð klaufskir í sínum aðgerðum og misstu boltann mikið. Það var ekki sami kraftur og var í þeim á síðasta tímabili en þeir eiga eflaust eftir að slípa sig betur saman enda margir nýjir leikmenn í liðinu. Georgi Boyanov var þeirra besti maður og skoraði 27 stig. Leikstjórnandinn Evan Singletary var með 17 stig og Collin Pryor 14.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Væntanlegt)

Viðtöl við þjálfara liðanna

Borche Ilievski, þjálfari ÍR.

Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu. Ég bjóst við meiru af mínu liði. Þó svo að ég hafi ekki endilega búist við frábærum leik þá bjóst ég við meiri ákefð og meiri baráttu en það gerðist ekki. Njarðvík gerði bara nóg til að vinna þennan leik, þetta voru ekki nema 13 stig sem þeir unnu okkur með en við höfðum aldrei orku til þess að vinna þennan mun upp. Við náðum nokkrum sinnum að minnka muninn í 7-8 stig en það var augljóst að okkur skorti kraft í kvöld, sérstaklega undir körfunni. 

Ertu ánægður með nýju leikmennina?

Já, tímabilið er bara ný byrjað en ég tel að það sé augljóst að okkur vanti skotbakvörð og framherja undir körfuna. Njarðvík voru mun betri en við undir körfunni í kvöld.

Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur  

Ég er fyrst og fremst ánægður með úrslitin og baráttuna hjá mínum mönnum. Gæðin í leiknum voru kannski ekki þau bestu eins og gengur og gerist á þessum árstíma. Við mættum liði sem er baráttuglatt og ég var ánægður með að menn voru að henda sér á lausa bolta og láta finna fyrir sér. Varnarlega er ég heilt yfir nokkuð sáttur. Sóknarlega eigum við helling inni, við skutum ekkert sérstaklega vel í kvöld og töpuðum boltanum oft klaufalega en við náðum samt að halda þessu 8-10 stiga forskoti allan leikinn og gerðum nóg til að vinna.

Hver eru markmiðin fyrir tímabilið?

Það er bara að undirbúa sig fyrir Tindastól á fimmtudaginn og við horfum ekkert lengra það. Þetta er hrikalega öflug deild sem við erum í og það er enginn leikur gefins. Það eru mörg lið sem ætla sér stóra hluti í vetur. Þannig að við tökum bara einn leik fyrir í einu og skoðum stöðuna þegar lengra líður á mótið en það er ekkert launungarmál að það er mikill vilji innan félagsins að gera betur en á síðustu leiktíð.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Þorsteinn Eyþórsson

Fréttir
- Auglýsing -