Mario Matasovic, Veigar Páll Alexandersson og Brynjar Kári Gunnarsson hafa allir framlengt samningum sínum við Njarðvík.
Brynjar Kári vakti verðskuldaða athygli á síðustu leiktíð og kom oftar en ekki með mikla og góða baráttu inn af Njarðvíkurbekknum en hann lék sitt fyrsta úrvalsdeildartímabil með ljónahjörðinni á síðasta tímabili. Brynjar samdi við Njarðvík næstu tvö tímabil sem og Veigar Páll Alexandersson.
Veigar Páll hefur síðustu misseri skipað sér á bekk með sterkustu leikmönnum deildarinnar og einn af burðarásum Njarðvíkurliðsins. Veigar var með 13 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili.

Þá gerði Mario Matasovic einnig nýjan þriggja ára samning við Njarðvík en hann hefur verið á mála hjá félaginu síðan 2018. Mario er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins en þessi 32 ára gamli framherji var með 13 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
„Brynjar kom virkilega flottur inn í hópinn okkar á síðasta tímabili og þá eins og mörgum er kannski kunnugt eru Mario og Veigar akkeri í okkar hóp. Það eru því góð tíðindi fyrir félagið að hafa framlengt við þessa herramenn sem ætla sér ekkert annað en að fara með Njarðvík upp á næsta stig,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkurliðsins.