spot_img
HomeFréttirNjarðvík sá til þess að KR tapaði öðrum leiknum í röð í...

Njarðvík sá til þess að KR tapaði öðrum leiknum í röð í Vesturbænum

KR gat með sigri á Njarðvík jafnað, toppliðin Keflavík og Stjörnuna, að stigum. Keflavík leikur sinn leik í 8. umferð annað kvöld. Njarðvík hafði fyrir leikinn unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum og KR-ingar sigruðu, þá taplaust, lið Keflavíkur í síðustu umferð. Leikurinn byrjaði þokkalega en stigaskorið lágt, 33 stig skoruð í fyrsta leikhluta. 35 stig voru skoruð í öðrum leikhltua og Njarðvíkingar virkuðu með tökin á leiknum, betri heildarmynd á þeirra spilamennsku.

Njarðvík leiddi mest með 15 stigum í þriðja fjórðungi en KR kom til baka og komst yfir með þriggja stiga körfu Jóns Arnórs í lokafjórðungnum. Njarðvíkingar gerðu vel í kjölfarið og unnu verðskuldað sinn fjórða sigur í röð.

Gangur leiks:

19 stig voru komin á töfluna þegar fórar mínútur lifðu leiks í opnunar fjórðungnum. Njarðvík leiddi með einu stigi á þeim tímapunkti og eftir slæmt innkast frá Brynjari, undir lok fjórðungsins, setti Mario muninn upp í fimm stig Njarðvíkingum í vil. Mario opnaði annan fjórðung á þriggja stiga körfu og kom forskotinu upp í átta stig.

Björn Kristjánsson, kom inn á í sínum fyrsta leik í vetur og svaraði fyrir KR með þriggja stiga skoti í næstu sókn. Annar leikhluti var sérstakur að því leytinu til að það var nánast ótrúlegt að Njarðvík leiddi ekki með meira en sex stigum í hálleik. Heidarbragur Njarðvíkurliðsins var flottur, allir að berjast fyrir liðsfélagana, á meðan tilfinningin var sú að hlutirnir væru tilviljunarkenndari hjá heimamönnum.

Njarðvíkingar hófu þriðja leikhluta gífurlega vel og voru kominr með 15 stiga forskot þegar hann var u.þ.b. hálfnaður og Ingi tók leikhlé. Leikur KR-inga batnaði í kjölfarið en 12 stiga munur var á liðunum þegar farið var inn í lokaleikhlutann. KR kom til baka í lokafjórðungnum og komst yfir með þriggja stiga körfu. Maciek svaraði með þriggja stiga körfu hinum meginn og Chaz Williams stýrði svo leiknum undir restina og tryggði Njarðvíkingum sigurinn.

Vendipunkturinn:

Maciek gerði svakalega vel í að svara þristinum frá Jóni Arnóri, sem kom KR yfir. Maciek var alveg ofan í Jóni þegar sá þristur fór niður og hefði varla getað varist því skoti betur. Maciek lét það ekkert á sig fá og svaraði fyrir sitt lið hinum megin, Njarðvík hélt svo forystu út leikinn.

Hetjan: Chaz Williams

Chaz var frábær undir lokin í kvöld. Hann byrjaði lokafjórðunginn hins vegar ekkert frábærlega og var 0 af 2 og tapaði einum bolta á fyrstu fimm mínútum fjórðungsins. Á síðustu fimm mínútunum skoraði hann 12 stig, tók eitt frákast og stal boltanum tvisvar. Alls skoraði hann 19 stig, gaf fimm stoðsendingar, stal fimm boltum og fiskaði sex villur.

Tölfræðin lýgur ekki:

Í fyrri hálfleik skoruðu gestirnir 22(38 alls) stig inn í teig gegn einungis 8(24 alls) inn í teig hjá heimamönnum. Njarðvík tók 15 fleiri skot en KR sem tapaði boltanum níu sinnum oftar. Njarðvík skoraði 24 stig eftir tapaða bolta hjá KR gegn einungis 8 stigum hjá KR eftir tapaða bolta Njarðvíkinga.

Varið skot öðru megin og þrjú stig hinum megin:

Njarðvík stal boltanum á annarri mínútu 2. fjórðungs. Kristinn Pálsson fór upp í sniðskot í hraðaupphlaupi en Kristófer Acox varði skotið með tilþrifum. Í næstu sókn tók svo Kristófer sóknarfrákast, setti sniðskot ofan í og fékk villu að auki. Vítaskotið fór ofan í og því góðu 15 sekúndna, eða svo, verki lokið hjá Acox.

Í lokafjórðungnum var svipað upp á teningnum en þá varði Craion frá Chaz og Brynjar setti niður þrist hinu meginn og jafnaði leikinn.

Erfiður fyrri hálfleikur hjá Craion og Jóni:

Mike Craion átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiknum og spilaði tæpar tíu mínútur. Hann var snemma í öðrum leikhluta kominn með þrjár villur og Ingi tók enga áhættu og tók Mike af velli. Mike skoraði 1 stig (10 alls) og Jón Arnór Stefánsson skoraði ekkert í hálfleiknum (6 alls). Saman voru þeir 0 af 6 af gólfinu í hálfleiknum.

Rætt við dómara í leikhléi:

Þrír KR-ingar áttu samskipti við dómara leiksins í hálfleik. Helgi Már Magnússon, Jón Arnór Stefánsson og Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari, vildu aðeins fara yfir stöðuna. Helgi vildi fá sóknarvillu á Njarðvíkinga í síðustu sókn þeirra í fyrri hálfleik. Fínt að hafa þrjá dómara til að ræða málin við.

Flott spilamennska Njarðvíkur:

Eins og fram hefur komið leit Njarðvíkur-liðið vel út í kvöld. Liðið spilaði góðan körfubolta og allir lögðu sig fram fyrir liðið. Allir níu leikmennirnir sem spiluðu skiluðu stigum á töfluna og það sást að það er komin meiri gleði og samheldni í liðið ef miðað er við upphaf leiktíðarinnar.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -