21:03
{mosimage}
(Arnar Freyr Jónsson prjónar sig fram hjá Njarðvíkurvörninni)
Grindavík vann stórsigur á grönnum sínum úr Njarðvík í þrettándu umferð Iceland Express deildar karla í Röstinni í kvöld. Lokatölur leiksins voru 113-85 Grindavík í vil sem stungu gesti sína af snemma í öðrum leikhluta. Nick Bradford lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Grindavík og komst ágætlega frá sínu miðað við að hafa lent á Klakanum um morgunverðarleytið í dag. Bradford eins og flestir þekkja er mikill stemmningsmaður og var atorkusamur á parketinu í en á smávegis í land upp á sitt besta form.
Athygli vakti að landsliðsmiðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson var ekki í byrjunarliði Njarðvíkinga í kvöld en í hans stað var annar og óreyndari maður að nafni Grétar Garðarsson sem skilaði sínu verki af prýði. Liðin skiptust á þriggja stiga körfum í upphafi leiks og á örskotsstundu snögghitnaði undir Loga Gunnarssyni sem leiddi Njarðvíkurliðið áfram. Heimamenn í Grindavík áttu þó frumkvæðið og Brenton Birmingham var að finna sig vel gegn sínum gömlu liðsfélögum. Njarðvíkingar léku svæðisvörn sem þeir og gerðu megnið af leiknum og verður seint sagt að varnarleikur gestanna hafi verið til eftirbreytni. Þó skal það ekki tekið af Grindvíkingum að þeir eru betur búnir en mörg önnur lið þegar kemur að sóknarleik.
Njarðvíkingar náðu af harðfylgi að hanga í pilsfaldi Grindavíkur í 1. leikhluta og var mikið skorað og staðan 35-32 fyrir Grindavík þar sem Logi Gunnarsson var kominn með 23 stig í liði Njarðvíkinga en 21 af þessum 23 stigum komu úr þriggja stiga skotum.
{mosimage}
(Páll Axel Vilbergsson)
Bakverðir Njarðvíkinga voru æði mistækir í sínum aðgerðum í kvöld og þjörmuðu Grindvíkingar vel að þessum efnilegu en reynslulitlu leikmönnum. Hægt og bítandi sigu Grindvíkingar fram úr og léku Njarðvíkurvörnina oft og tíðum grátt. Staðan í hálfleik var 68-49 fyrir Grindavík þar sem Brenton Birmingham var með 15 stig í liði Grindavíkur en Logi Gunnarsson var kominn með 27 stig í liði Njarðvíkinga.
Grindvíkingar gerðu 7 fyrstu stig síðari hálfleiks og þá stóðu leikar 75-49. Þessum mun náðu Njarðvíkingar aldrei að ógna og Grindvíkingar unnu eins og áður segir sannfærandi 113-85 sigur í leik sem var ekki spennandi í mikið meira en 10 mínútur.
{mosimage}
(Óli Ragnar Alexandersson)
Logi Gunnarsson var stigahæstur í liði gestanna með 34 stig en næstur honum var Magnús Þór Gunnarsson með 21 stig. Hjá Grindavík var Brenton Birmingham atkvæðamestur með 22 stig og Páll Axel Vilbergsson var með 21 stig. Nick Bradford nýji liðsmaður Grindvíkinga gerði 18 stig.
Tölfræði leiksins
[email protected]
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
(Nick Bradford skemmti sér vel í sínum fyrsta leik á Íslandi þessa leiktíðina)
{mosimage}



