Njarðvíkingar eru komnir einir á topp Iceland Express deildar karla eftir að hafa rúllað yfir granna sína frá Keflavík 76-63. Fín lokarispa Keflavíkur kom í veg fyrir að þeir hefðu tapað mun stærra. Kristján Rúnar Sigurðsson kveikti í Njarðvíkingum fyrir utan þriggja stiga línuna en hann og Magnús Þór Gunnarsson settu báðir niður 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og luku leik með 21 stig. Keflvíkingar voru allir sem einn fjarri sínu besta en Hörður Axel Vilhjálmsson var þeirra atkvæðamestur með 21 stig.
Hörður Axel Vilhjálmsson valdist til þess að opna viðureignina með þriggja stiga körfu en Magnús Gunnarsson svaraði fyrir Njarðvíkinga að bragði og jafnaði metin. Viðeigandi þar sem báðir þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að hafa ,,farið yfir lækinn.“ Flott byrjun á hinum íslenska ,,El Classico“ en svo varð leikurinn eins og 33ja snúninga stilling á gömlu plötuspilurunum, það lægði í Ljónagryfjunni. Liðin lögðu ofurkapp á vörnina, eins og gefur að skilja, og fyrir vikið var lítið skorað en hart barist.
Keflvíkingar komust í 5-9 en þá kom Kristján Rúnar Sigurðsson inn á í Njarðvíkurliðinu og minnti rækilega á afhverju hann er kallaður ,,Byss.“ Tveir þristar með skömmu millibili frá Kristjáni komu heimamönnum í 16-11 og leiddu Njarðvíkingar 18-11 að loknum fyrsta leikhluta. Þegar upphafsleikhlutinn var að líða undir lok kom Egill Jónasson inn á í Njarðvíkurliðinu en hann var að leika sinn fyrsta leik á tímabilinu þar sem hann hefur verið að glíma við meiðsli.
Upphafsleikhlutinn var nokkuð mistækur á báða bóga og til að kóróna fátið á mönnum stal Hörður Axel boltanum af Njarðvíkingum og hugðist gera flautukörfu en brenndi af sniðskotinu einn og óvaldaður. Nokkuð talandi dæmi fyrir bæði lið.
Keflvíkingar þéttu vörnina í öðrum leikhluta og náðu heimamenn ekki að skora fyrr en rétt rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Keflvíkingar náðu þó ekki að komast yfir en voru mun ákveðnari. Jón N. Hafsteinsson, Keflavík, og Guðmundur Jónsson, Njarðvík, fengu þrjár villur í öðrum leikhluta en það voru svo æskuvinirnir Kristján Rúnar og Jóhann Árni sem leiddu Njarðvíkinga inn í hálfleikinn með fínum rispum og heimamenn voru yfir 34-22.
Rashon Clark, Bandaríkjamaðurinn í liði Keflavíkur, gerði aðeins eitt stig í fyrri hálfleik og sé tekið mið af Bandaríkjamönnum Keflavíkur síðustu árin þá verður það seint talið til afreka. Kristján Rúnar Sigurðsson var með 11 stig í hálfleik fyrir Njarðvíkinga og Jóhann Árni 10 en í liði Keflavíkur var Hörður Axel með 9 stig og Siguður Gunnar Þorsteinsson með 6 stig.
Eftir rétt rúmlega þriggja mínútna leik í seinni hálfleik höfðu Njarðvíkingar náð upp myndarlegu forskoti þar sem Magnús Þór Gunnarsson var að gera Keflvíkingum lífið leitt. Heimamenn beittu svæðisvörn sem og maður á mann vörn og Keflvíkingar áttu engin svör. Voru staðnaðir í sóknarleik sínum en vörnin var þó áfram þokkaleg.
Kristján Rúnar Sigurðsson kom inná undir lok þriðja leikhluta og hélt áfram að láta rigna yfir Keflvíkinga og með tveimur þristum kom hann Njarðvíkingum í 61-34 og heimamenn leiddu svo 63-40 fyrir fjórða leikhluta og voru algerlega einráðir á vellinum.
Þegar fjórar mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta var staðan 67-46 Njarðvíkingum í vil og fátt sem benti til þess að Keflvíkingar ættu sér viðreisnar von. Sigurður Gunnar og Hörður Axel, sem voru bestu menn Keflavíkur í dag, reyndu að keyra Keflvíkinga áfram en það var enginn sem fylgdi fordæmi þeirra og því áttu Njarðvíkingar næstum því náðugan lokasprett.
Keflavík klóraði aðeins í bakkann og lokatölur leiksins urðu 76-63 Njarðvík í vil og því enn von fyrir Keflvíkinga til að ná innbyrðisviðureigninni í sínar hendur ef þeir ná að leggja granna sína eftir áramót þegar liðin mætast í Toyota-Höllinni.
Stigahæstu menn í Njarðvíkurliðinu voru þeir Magnús Þór og Kristján Rúnar báðir með 21 stig en næstur þeim var Jóhann Árni Ólafsson með 14 stig. Friðrik Stefánsson gerði 3 stig í leiknum en tók 13 fráköst og þá var Egill Jónasson með 5 fráköst og 2 varin skot á þeim rúmum átta mínútum sem hann lék í þessum fyrsta deildarleik sínum á tímabilinu.
Fátt var um fína drætti í herbúðum Keflavíkur en Hörður Axel Vilhjálmsson var með 21 stig og 3 fráköst og honum næstur kom Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 17 stig og 9 fráköst. Rashon Clark gerði einungis 6 stig í leiknum en var með 12 fráköst. Fimm stiga hans komu þó á lokasprettinum og óhætt að fullyrða að hans var sárt saknað af Keflvíkingum í kvöld.
Njarðvíkingar eru því einir á toppnum og geta prísað sig sæla yfir að hafa lagt granna sína fyrir fullu húsi en rúmlega 600 miðar voru seldir í Ljónagryfjunni í kvöld og ræddu forsvarsmenn UMFN um það eftir leik að þetta hefði verið ein besta mæting á deildarleik í langan tíma.