spot_img
HomeFréttirNjarðvík ríghélt í 2. sætið inn í nýja árið

Njarðvík ríghélt í 2. sætið inn í nýja árið

Njarðvík lagði Grindavík í kvöld í Smáranum í 13. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar með 10 sigra og 3 töp á meðan að Grindavík er sæti neðar í því 3. með 9 sigra og 4 tapaða eftir þessar fyrstu 13 umferðir.

Fyrir leik

Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst á tímabilinu, en þann 10. október hafði Njarðvík fjögurra stiga sigur, 56-60, gegn Grindavík í Ljónagryfjunni. Sterka pósta vantaði í bæði lið kvöldsins, en hjá Grindavík voru Ólöf Rún Óladóttir og Hekla Eik Nökkvadóttir frá vegna meiðsla á meðan að Njarðvík var enn að spila án bandarísks leikmanns.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem að liðin skiptust í nokkur skipti á forustunni í fyrsta fjórðung, en þegar hann var á enda leiðir Njarðvík með 4 stigum, 16-20. Njarðvík virðist svo ná ágætis tökum á leiknum í öðrum leikhlutanum þó þær nái ekki að byggja upp neitt ýkja mikla forystu. Sóknarleikur Grindavíkur á löngum köflum gríðarlega stirður, fáar að leggja í púkkið á meðan að hjá Njarðvík áttu Emilie, Jana, Krista, Ena og Andela allar nokkuð góðan fyrri hálfleik. Staðan jöfn þegar liðin halda til búningsherbergja eftir fyrri hálfleik, 40-40.

Stigahæst fyrir Grindavík í fyrri hálfleiknum var Dani Rodriguez með 19 stig á meðan Anðela Strize var komin með 10 stig fyrir Njarðvík.

Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. Þá er hinsvegar komið að Grindavík að, allavegana líta út fyrir, að vera með einhver smá tök á leiknum. Með góðum lokamínútum þess þriðja nær Njarðvík þó að kría út eins stig forystu inn í lokaleikhlutann, 50-51. Njarðvík nær svo að halda sér fyrir framan langt inn í fjórða leikhlutann og eru 4 stigum yfir þegar 4 mínútur eru til leiksloka, 54-58. Grindavík er þó ekki langt undan og er munurinn aðeins 3 stig þegar ein og hálf eru eftir, 58-61. Undir lokin gerir Grindavík ansi vel að koma sér í aðstöðu til að jafna leikinn, en skot Dani Rodriguez vill ekki ofaní. Niðurstaðan að lokum 3 stiga sigur Njarðvíkur, 63-66.

Kjarninn

Leikur kvöldsins hefði svo sannarlega geta farið á báða vegu. Grindavík treysti kannski fullmikið á hvað Dani Rodriguez gat gert fyrir þær sóknarlega. Hefur svosemn ekkert alltaf verið þannig hjá þeim í vetur, og þó að hún sé frábær, virtist það há þeim dálítið á löngum köflum. Eins og komið var að, skrifast sigurinn á móti á liðsheildina hjá Njarðvík. Þær voru að spila á einhverjum 3-4 leikmönnum sem allar gátu búið til fyrir sig sjálfar.

Fyrir utan Keflavík, sem er langbesta liðið í þessari deild. Þá eru liðin tvö er öttu kappi í kvöld alveg án nokkurs vafa þau næstbestu það sem af er tímabili og áhugavert verður að sjá hvort að þau fullmönnuð (ólíkt því er var í kvöld) nái ekki að gera einhverja alvöru atlögu að yfirráðum Keflavíkur á nýju ári.

Atkvæðamestar

Best í liði Njarðvíkur í kvöld var Emilie Hesseldal með 11 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Fyrir Grindavík var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 23 stig, 9 fráköst, 3 stoðsendingar og 7 stolna bolta.

Hvað svo?

Liðin eru nú komin í frí yfir nýja árið. Heil umferð verður á dagskrá 2. janúar, en þá mætir Grindavík liði Breiðabliks á heimavelli beggja liða í Smáranum á meðan að Njarðvík fær spútnik lið Þórs Akureyri í heimsókn í Ljónagryfjuna.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -