spot_img
HomeFréttirNjarðvík Powerademeistari kvenna 2012!!! (umfjöllun)

Njarðvík Powerademeistari kvenna 2012!!! (umfjöllun)

Njarðvík tryggði sér sinn fyrsta bikarmeistaratitil í kvennaflokki með glæstum sigri á Snæfell í Laugardalshöllinni í dag.  Njarðvík hafði tröllatak á leiknum í dag og náði mest 18 stiga forskoti í stöðunni 48-66 en Snæfell kom til baka og úr varð æsispennandi leikur.  Njarðvíkingar þurfti því að hafa fyrir sigrinum en Lele Hardy reyndist liðinu ótrúlega vel á lokamínútum leiksins.    Fyrir liði Njarðvíkur fóru Lele Hardy og Shanae Baker sem áttu hreint út sagt stórkostlegan leik báðar tvær.  Shanae Baker var tilnefnd mikilvægasti leikmaður leiksins með ótrúlegar tölur, 35 stig, 16 fráköst, 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta.  Lele Hardy var ekki langt á eftir henni með 26 stig og 24 fráköst.  Petrúnella Skúladóttir átti einnig mjög góðan dag í liði Njarðvíkur með 18 stig.  Í liði Snæfells var Kieraah Marlow atkvæðamest með 37 stig en næstar voru það Jordan Lee Murphree með 15 stig, 15 frákost og 5 stoðsendingar og Hildur Sigurðardóttir með 13 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.  
 Snæfell setti upp í aggressíva svæðisvörn strax frá fyrstu mínútum leiksins og Njarðvík endaði því flestar sóknir á upphafsmínútunum á skoti nokkuð fyrir utan þriggja stiga línuna.  Það var ekki fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur og í sjöttu tilraun sem það borgaði sig.  Snæfell tókst þó ekki að nýta sér þennan varnarleik því þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var hnífjafnt, 8-8.  Njarðvík lærði svo fljótt að finna sér leiðir framhjá vörn Snæfellinga og höfðu náð 4 stiga forskoti þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta, 12-16.  Snæfell var bókstaflega að gefa Njarðvíkingum boltan trekk í trekk með því að blaka fráköstum til þeirra eða hreinlega að gleyma að fara upp í fráköstin.  Ingi Þór Steinþórsson tók því leikhlé og las yfir sínu liði.  Liðið virtist aðeins taka við sér og þegar fyrsta leikhluta lauk munaði þremur stigum á liðunum, 19-22.  Lele Hardy og Shanae Baker fóru hreinlega á kostum í fyrsta leikhluta og hirtu samanlagt 14 fráköst og settu 14 stig en Snæfells liðið eins og það leggur sig tók aðeins 11 fráköst í fyrsta leikhluta. 

 

Ekki skánuðu hlutföllin í frákastabaráttu leiksins Snæfelli í hag í öðrum leikhluta en þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu Njarðvíkingar tekið 24 fráköst á móti 12 fráköstum Snæfells, sóknarfráköst Njarðvíkur voru 13 af þessum 24.  Njarðvík var þó ekki að nýta sér þau tækifæri sem skildi og höfðu þá aðeins þriggja stiga forksot 26-29.  Snæfell hafði jafnað leikinn þegar annar leikhluti var hálfnaður 31-31.  Það var þó alltaf Njarðvík sem hafði frumkvæðið og um tveimur mínútum seinna höfðu þær náð 4 stiga forskoti á ný, 31-35. Ingi Þór Steinþórsson tók þá leikhlé fyrir Snæfell. Snæfell jafnaði svo leikinn stuttu seinna og komust yfir, 36-35, í fyrsta skiptið síðan í stöðunni 6-5.  Alda Leif Jónsdóttir fékk að setjast á bekkinn þegar rúm mínúta var eftir að fyrri hálfleik þegar hún fékk sína þriðju villu.  Það var hins vegar Njarðvík sem fór með forskotið inní hálfleikinn, 38-41.  

 

Stigahæst í liði Njarðvíkur í hálfleik var Shanae Baker með 24 stig og 8 fráköst en næstar voru Petrúnella Skúladóttir og Lele Hardy með 8 stig hvor.  Hardy hafði þó tekið 16 fráköst sem fróðir menn ættu að fletta upp í sögubókunum því annað eins hefur líklega ekki sést.  Í liði Snæfells var Kieraah Marlow stigahæst með 24 stig en næstar voru Hildur Sigurðardóttir með 7 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og Hildur Björg Kjartansdóttir með 4 stig.  

 

Njarðvík var eina liðið sem mætti til leiks á fyrstu mínútu seinni hálfleiks en þær skoruðu fyrstu 7 stig leikhlutans og höfðu náð 10 stiga forskoti, 38-48.  Alda Leif Jónssdóttir fékk slæma byltu þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta og þurfti að gera nokkuð hlé á leiknum á meðan hún fékk þá aðstoð sem hún þurfti.  Njarðvík gaf ekkert eftir og þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu þær náð 16 stiga forskoti, 44-60 og Ingi Þór Steinarsson tók leikhlé fyrir Snæfell.  Petrúnella og Hardy skelltu tveimur þristum á Snæfellingana á stuttum tíma og kom þeim í 18 stiga forskot, 48-66.  Snæfell tók þá góðan kafla og skoraði næstu 8 stig leiksins þangað til Sverrir Sverrisson tók leikhlé fyrir Njarðvík, 56-66.  Snæfell pressuðu boltan hátt og tókst að trufla sóknarleik Njarðvíkur nokkuð.  Þegar flautað var til loka þriðja leikhluta höfðu Njarðvíkingar 8 stiga forskot, 58-66.  

 

Snæfell galopnaði leikinn í upphafi fjórða leikhluta og skoruðu fyrstu 4 stigin og munaði því aðeins fjórum stigum á liðunum þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 62-66.  Njarðvík stóðs þó áhlaupið og höfðu náð forskotinu aftur upp í 7 stig þegar fjórði leikhluti var hálfnaður, 67-74.  Ingi Þór Steinarsson tók þá leikhlé.  Snæfell var stuttu seinna búið að minnka muninn aftur niður í 3 stig, 71-74 og spennan í höllinni farin að magnast.  Stuðningsmenn Snæfells stóðu svo allir á lappir þegar Jordan Lee Murphree minnkaði muninn niður í 1 stig, 73-74.  Það var hins vegar Lele Hardy sem steig  upp fyrir Njarðvík og skoraði 5 stig í röð ásamt því að stela boltanum þegar 1 mínúta og 21 sekúndar var eftir, 75-81.  Njarðvíkingar spiluðu klukkuna í næstu sóknum og tóku þá áhættu að taka erfið skot þegar skotklukkan var að klárast.  Snæfell náði því að minnka muninn í 4 stig, 77-81, þangað til að Sverrir Þór Sverrisson tók leikhlé fyrir Njarðvík en þá voru 18 sekúndur eftir af leiknum og Shanae Baker á vítalínunni. Hún nýtti bæði vítin og höllin var staðin á fætur.  Snæfell tókst ekki að nýta næstu sókn og aftur var Baker send á línuna þar sem hún tryggði Njarðvík sér sinn fyrsta bikarmeistaratitil í körfuknattleik kvenna, 77-84.  

Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson og Georg Andersen 

karfan.is óskar körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og Njarðvíkurliðinu innilega til hamingju með fyrsta bikarmeistaratitil kvenna í sögu Njarðvíkur! 

Myndasafn frá leiknum eftir Þorstein Eyþórsson 

Mynd: [email protected]

Umfjöllun: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -