spot_img
HomeFréttirNjarðvík of stór biti fyrir Þór

Njarðvík of stór biti fyrir Þór

Það getur verið dýrkeypt að missa andstæðing sinn langt fram úr sér í upphafi leiks og þurfa elta andstæðinginn sem fyrirfram er talinn vera númeri of stór. Þetta var sá veruleiki sem blasti við okkar mönnum í kvöld þegar þeir tóku á móti Njarðvík. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust í 8:0 og 10:2 en þá kom stuttur kafli hjá Þór og þeir minnkuðu muninn í tvö stig þegar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum 9:10. Þegar hér var komið við sögu settu gestirnir í annan gír og juku forskotið jafnt og þétt og þegar fyrsti leikhlutinn var úti var munurinn orðin 15 stig 20:35.

Leikurinn jafnaðist heldur í öðrum leikhluta en gestirnir héldu okkar mönnum ávallt í hæfilegri fjarlægð þótt okkar mönnum hafi tekist um tíma að koma muninum niður í níu stig. Þór vann leikhlutann með tveimur stigum 27:25 og munurinn í hálfleik þrettán stig 47:60. Erfið staða en ekki óyfirstíganleg.

Þriðji leikhlutinn einkenndist af miklum sveiflum svo ekki sé nú fastara að orðið kveðið. Njarðvík byrjaði fjórðunginn betur fyrstu mínútuna eða svo en okkar menn gáfu í og minnkuðu muninn í tólf stig þegar þrár mínútur voru liðar en þá fór allt að ganga á afturfótunum hjá Þór og gestirnir stungu af og þegar rúm mínúta lifði af leikhlutanum var munurinn orðin 25 stig 61:86. Njarðvík vann leikhlutann með sjö stigum 19:26 og leiddur með tuttugu stigum fyrir lokasprettinn 68:88.

Munurinn var orðin allt of mikill þegar lokaspretturinn hófst en Þórsliðið gafst þó ekki upp og lögðu menn sig alla fram um að laga stöðuna sem mest þeir máttu. Fór svo að Þór vann leikhlutann með tveimur stigum 25:23 en átján stiga sigur Njarðvíkinga sanngjarn þegar upp er staðið.

En eins og Kolbeinn Fannar fyrirliði benti á þá var leikur Þórs alls ekki sannfærandi í kvöld „að skora 91 stig er gott en léleg vörn að fá á sig 109 stig“ Kolbeinn bætti því við og sagði það enga afsökun þótt í liðið hafi vantað Jonathan Lawton í kvöld,  það á alltaf að koma maður í manns stað.

Í liði Þórs var Jordan stigahæstur með 25 stig og 9 fráköst. Framlag annarra leikmanna Þórs; Bouna N´Diaye 19/3/0, Kolbeinn Fannar 12/4/1, Ragnar Ágústs 8/6/0, Eric Fongue 8/3/3, Hlynur Freyr 7/3/0, Dúi Þór 5/3/14, Baldur Örn 4/4/2, Ólafur Snær 3 stig þá spilaði Smári Jóns en náði ekki að skora en var með 2 stoðsendingar.

Hjá Njarðvík var fyrrum leikmaður Þórs Dedrick Basile stigahæstur með 23 stig 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Framlag annarra: Mario 16/7/4, Nicolas 16/5/4, Fotios 15/13/2, Ólafur Helgi 8 stig, Logi 7/2/6, Snjólfur 3/4/1, Elías Bjarki 3 stig, Jan Baginski 2 og Bergvin Einir 2.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -