spot_img
HomeFréttirNjarðvík næsta öruggar í úrslitakeppni eftir sigur í Grindavík

Njarðvík næsta öruggar í úrslitakeppni eftir sigur í Grindavík

Grindavík tók á móti grönnum sínum úr Njarðvík í kvöld, og unnu gestirnir að lokum sanngjarnan sigur eftir ansi harða baráttu.

Það var ljóst fyrir leik að til þess að Grindavíkurstúlkur ættu áfram lítinn möguleika á sæti í úrslitakeppninni yrðu þær að sigra – það tókst ekki og ljóst að Njarðvík fer í úrslitakeppnina.

Það var mikil stemmning í liði heimastúlkna í byrjun leiks og á bekknum var stemmarinn líka góður. Grindavík gaf Íslandsmeisturunum ekkert eftir og liðið lék af krafti. Hins vegar eyðilegði það mikið fyrir leik Grindavíkur í fyrri hálfleik hversu mörgum boltum liðið tapaði með lélegum sendingum og Njarðvíkingar nýttu sér það vel.

Hefði Grindavíkurliðinu tekist að halda boltanum betur innan liðsins hefði staða þess í leikhléi án efa verið mun betri, en þá stóðu leikar 30-35.

Njarðvíkurliðið lék ekki sinn besta leik í fyrri hálfleiknum; var líkt og liðið hefði varla mætt til leiks í fyrsta leikhluta sérstaklega.

Í þriðja leikhluta spiluðu bæði lið betur en í fyrri hálfleik og að leikhlutanum loknum voru liðin hnífjöfn, 54-54.

Í lokaleikhlutanum tóku svo Íslandsmeistararnir við sér með Bríeti Sif Hinriksdóttur í broddi fylkingar; hún steig upp hvað eftir annað og sýndi hver leiðin til sigurs væri með mikilvægum körfum á mikilvægum augnablikum.

Svo fór að Njarðvík stakk heimakonur úr Grindavík af í lokaleikhlutanum; lokatölur urðu 72-87.

Áðurnefnd Bríet var frábær í síðari hálfleik og gerði gæfumuninn. Raquel De Lima Vegs Laneiro var hins vegar potturinn og pannan í sóknarleik Njarðvíkinga; góður leikstjórnandi og afar hittinn leikmaður. Ísabella Ósk Sigurðardóttir var sterk inn í teig og mjög drjúg í lokaleikhlutanum. Annars var liðið mjög gott í síðari hálfleik og á það eflaust eftir að bíta hressilega frá sér í úrslitakeppninni.

Hjá Grindavík var Dani Rodriquez öflug eins og oft áður og fór fyrir sínu liði. Hulda Björk Ólafsdóttir er sterkur leikmaður sem gerði vel. Lið Grindavíkur lék vel í heildina sé megnið af lokaleikhlutanum mínusað frá; liðið á í raun hrós skilið fyrir baráttuna gegn sterkari andstæðingi. Þorleifur Ólafsson þjálfari Grindavíkur hefur gert góða hluti með liðið í vetur og framtíðin er björt í kvennaboltanum í Grindavík.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Fréttir
- Auglýsing -