spot_img
HomeFréttirNjarðvík lagði meistarana í framlengingu

Njarðvík lagði meistarana í framlengingu

Framlengt í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem heimamenn göldruðu fram 101-97 sigur á Íslandsmeisturum Tindastóls. Gestirnir úr Skagafirði gerðu vel að koma leiknum í framlengingu en lengra komust þeir ekki. Chaz Williams leiddi Njarðvíkinga áfram með 21 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar en Callum Lawson var stigahæstur Tindastólsmanna með 28 stig og 7 fráköst.

Njarðvíkingar fullmannaðir í kvöld og komnir með Carlos og Elías aftur í búning eftir snarpa veru þeirra félaga á hnjaskvagninum en sá vagn er enn þéttsetinn hjá Tindastól og dylst engum að meistararnir verða illviðráðanlegir þegar allir hestar mæta aftur í hús. Í fjarveru lykilmanna var þó gaman að sjá Ragnar og Orra í baráttunni þar sem Ragnar gerði 17 stig og tók 8 fráköst fyrir Tindastól.

Jólin koma

Einhvern vegin bjóst maður við að húsfyllir yrði á þessum leik en eitthvað segir greinarhöfundi að á föstudagskvöldum þegar líða tekur á nóvembermánuð séu jólahlaðborðin og körfuboltaleikir komin í bullandi samkeppni. Stuðningsmenn liðanna fengu þó hjartastyrkjandi upplifun með framlengingu í ábæti.

Það helsta

Gæðaeftirlitið hefði seint kvittað upp á fyrsta leikhluta í Ljónagryfjunni. Staðan 15-15 eftir fyrstu tíu mínúturnar þar sem heimamenn voru 1-11 í þristum. Milka með 6 stig í liði heimamanna en Callum 10 hjá Tindastól.

Í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar smá rispu og slitu sig stutt frá gestunum og leiddu 39-33 í hálfleik. Tindastólsmenn læddu sér í svæðisvörn og kannski ekki að ósekju að bjóða Njarðvíkingum í nokkuð opna þrista því heimamenn voru 3-22 í fyrir utan línuna eða 13% í fyrri hálfleik.

Milka stigahæstur Njarðvíkinga með 11 stig í hálfleik og þeir Carlos og Mario báðir með 8 en hjá Stólunum var Callum með 13 og Ragnar 10 en sá síðarnefndi átti nokkrar góðar rispur í öðrum leikhluta. Þórir var stigalaus hjá Tindastól í fyrri hálfleik þar sem Chaz Williams hafði á honum góðar gætur en gæðaleikmenn eins og Þórir eru ekki stigalausir mikið lengur en það.

Tóti eins og hann er af mörgum kallaður setti strax mark sitt á síðari hálfleikinn og lauk leik með 19 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar í kvöld.

Milka var að finna sig vel í síðari hálfleik og reyndist gestunum oft erfiður á blokkinni. Njarðvík náði smávægilegum undirtökum og leiddi 67-61 eftir þriðja leikhluta.

Í fjórða virtust heimamenn nokkrum sinnum ætla að gera út um leikinn en Tindastólsmenn létu ekki stinga sig af. Lokamínútan var ævintýri með hverjum risaþristinum á fætur öðrum. Þórir jafnaði svo fyrir Tindastól 88-88 þegar 9 sekúndur voru til leiksloka. Lokasókn Njarðvíkinga var eitt hikstandi hrafnaspark og því varð að framlengja.

Framlengingin var í járnum uns Chaz Williams skellti niður risaþrist og kom Njarðvíkingum í 100-96 þegar 30 sekúndur lifðu leiks. Smiðshöggið og lokatölur 101-97 eins og áður greinir.

Hjá Njarðvík er það hver stórleikurinn sem rekur annan því í næstu umferð mætir Þór Þorlákshöfn í heimsókn og ekki verður síðri næsta viðureign Tindastóls þegar Haukar mæta í Síkið.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -