spot_img
HomeFréttirNjarðvík Íslandsmeistari í stúlknaflokki

Njarðvík Íslandsmeistari í stúlknaflokki

Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í stúlknaflokki eftir rafmagnaðan spennusigur á stöllum sínum úr Keflavík en framlengja varð þennan æsispennandi grannaslag. Lokatölur reyndust 81-75 Njarðvík í vil sem áttu framlenginguna og héldu Keflvíkingum þar stigalausum uns tæpar 40 sekúndur voru eftir. Eyrún Líf Sigurðardóttir var valin besti maður leiksins með 30 stig, 6 fráköst, 6 stolna bolta og 3 stoðsendingar. Sverrir Þór Sverrisson og Lárus Ingi Magnússon eru þjálfarar stúlknaflokksins í Njarðvík og gerðu þær að Íslands- og bikarmeisturum þetta tímabilið, bíddu, gerðu þeir ekki eitthvað svipað um daginn með meistaraflokkinn? Myndarlegt tímabil hjá þeim félögum.
Eyrún Líf Sigurðardóttir kom Njarðvíkingum í 5-2 með þriggja stiga körfu en grænar máttu bíða í níu tilraunir til viðbótar áður en næsti þristur þeirra datt í fyrsta leikhluta! Bæði lið mættu með læti til leiks, léku bæði svæðisvörn og það gekk brösuglega að skora. Í stöðunni 7-7 fór allt í lás, þá voru um fimm mínútur eftir af leikhlutanum og ekkert var skorað næstu fjórar mínúturnar eða svo. Loks losnaði um hömlurnar, Njarðvíkingar settu þrist og komust í 10-9 og Keflavík leiddi svo 10-11 að loknum fyrsta leikhluta með tveimur stigum af línunni.
 
Sara Rún Hinriksdóttir var beitt hjá Keflavík í upphafi annars leikhluta og með sex stigum frá Söru í röð leiddu Keflvíkingar 15-19. Njarðvíkingar jöfnuðu svo metin í 22-22 og fóru við það á flug. Keflvíkingar áttu frákastabaráttuna þökk sé Evu Rós og Söndru Lind en illa gekk þeim að skora svo Njarðvíkingar gengu á lagið og kláruðu fyrri hálfleik með 12-3 kafla þar sem þær Guðlaug Björt og Eyrún Líf fóru fyrir Njarðvíkingum.
 
Guðlaug Björt var með 10 stig hjá Njarðvík og Sara Rún sömuleiðis í Keflavíkurliðinu og Keflvíkingar yfir í frákastabaráttunni 33-22 í hálfleik. Njarðvíkingar voru ófeimnir við að skjóta í fyrri hálfleik, settu niður 4 af 19 þristum sínum fyrstu 20 mínúturnar.
 
Njarðvíkingar opnuðu síðari hálfleik með látum, Eyrún Líf Sigurðardóttir skellti þá niður tveimur þristum og grænar leiddu 40-25 og Keflvíkingar skiptu yfir í maður á mann vörn. Hægt og bítandi fór Keflavíkurmaskínan að malla, Sandra Lind sem hafði brennt af öllum sjö teigskotunum sínum í fyrri hálfleik fór að finna taktinn og Keflvíkingar minnkuðu í 44-38. Lovísa Falsdóttir kom skömmu síðar með þrist fyrir Keflvíkinga og minnkuðu þær muninn í 47-45 og eftir leikhlé Njarðvíkinga komst Keflavík í 47-49, þarna varð einhver 3-19 rispa úr stöðunni 44-30 og Njarðvíkingar komnir á hælana gegn grimmum Keflvíkingum sem leiddu 51-54 fyrir fjórða og síðasta leikluta en Keflavík vann leikhlutann 17-28.
 
Í fjórða leikhluta var allt í járnum, Lovísa Fals kom Keflavík í 59-63 með þriggja stiga körfu en grænar vildu ekki láta stinga sig af. Aníta Carter steig upp í liði Njarðvíkinga þegar halla tók á fjórða leikhluta og jafnaði metin í 64-64. Aftur var Aníta Carter á ferðinni þegar hún jafnaði leikinn í 69-69 af vítalínunni og hún hafði ekki sungið sitt síðasta því Sara Rún Hinriksdóttir kom Keflavík í 69-71 með gegnumbroti og slíkt hið sama gerði Aníta fyrir Njarðvík og jafnaði í 71-71 þegar 4 sekúndur voru eftir. Keflvíkingar hentu frá sér boltanum í næstu sókn og Njarðvíkingar áttu því lokaskotið þar sem Eyrún Líf lét vaða en ekki vildi það niður og því varð að framlengja.
 
Í framlengingunni kom Aníta Njarðvík í 73-71 og var þar búinn að skora sex stig í röð fyrir Njarðvíkinga og vörn þeirra grænu ríghélt á meðan lykilmenn Keflavíkur týndust af velli með fimm villur og töluvert bit tekið úr sóknarleik þeirra Keflvíkinga með Lovísu Fals og Evu Rós á bekknum. Svo fór að Njarðvík vann framlenginguna 10-4 en Keflvíkingar skoruðu ekki í framlengingunni fyrr en rúmar 40 sekúndur voru eftir!
 
Keflavík rúllaði upp frákastabaráttunni 68-40 í leiknum en Njarðvíkingar héldu sér þrátt fyrir það inni í leiknum. Eyrún Líf lauk leik með 30 stig, 6 fráköst og 6 stolna bolta í Njarðvíkurliðinu og Aníta Carter bætti við 15 stigum og 5 stoðsendingum en hún var sérlega skæð á lokaspretti leiksins. Guðlaug Björt Júlíusdóttir gerði svo 17 stig og tók 6 fráköst. Hjá Keflavík var Sandra Lind Þrastardóttir með 11 stig og 23 fráköst og Eva Rós Guðmundsdóttir bætti við 10 stigum og 17 fráköstum. Stigahæst Keflvíkinga var Sara Rún Hinriksdóttir með 21 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.
 
Gangur leiksins:
10-11, 34-25, 51-54, 81-75
 
Mynd og umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -