Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í 10. flokki karla eftir sterkan sigur á KR í úrslitaviðureign liðanna í Smáranum í Kópavogi. Lokatölur 77-64 Njarðvík í vil en þessi tvö öflugu lið hafa alla yngri flokkana eldað saman grátt silfur og KR um árabil haft betur en nú var röðin komin að Njarðvíkingum sem fögnuðu vel og innilega í leikslok. Adam Eiður Ásgeirsson var valinn besti maður leiksins með 28 stig, 4 fráköst, 3 stolna bolta og eina stoðsendingu. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var einnig framúrskarandi í liði KR með 39 stig og 9 fráköst.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var sjóðheitur í liði KR í upphafi leiks en röndóttir leiddu 17-12 eftir fyrsta leikhluta þar sem Þórir gerði 15 af 17 stigum KR og var m.a. 3-3 í þristum. Njarðvíkingar að sama skapi voru ekki að finna taktinn í skotunum en góð barátta í Snjólfi Stefánssyni og Sigurjóni Gauta Friðrikssyni hélt Njarðvíkingum á lífi. Sigurjón kom með sterkt innslag fyrir Njarðvíkinga þegar hann skoraði um leið og leikhlutanum lauk og fékk villu að auki, Sigurjón sökkti vítinu og minnkaði muninn í 17-12.
Í öðrum leikhluta þéttu Njarðvíkingar varnarleikinn en komu þó ekki í veg fyrir fjórða þristinn hjá Þóri sem kom KR í 20-14 og var þar með kominn með 18 af 20 fyrstu stigum KR! Eftir þetta tók Adam Eiður Ásgeirsson við í liði Njarðvíkinga og bauð ekki upp á síðri frammstöðu en þá sem Þórir var að sýna. Adam skellti niður tveimur þristum, fór sterkt upp að körfunni og skoraði, bætti við þriðja þristinum og þessari bunu sinni lauk hann með stolnum bolta þar sem hann arkaði sjálfur upp völlinn og kom Njarðvíkingum í 26-35 og var kominn með 15 stig í röð!
KR-ingar áttu lokaorðið í fyrri hálfleik þar sem Eyjólfur Ásberg Halldórsson fékk boltann á blokkinni eftir fína fléttu og skoraði með laglegri hreyfingu í teignum, staðan 28-35 fyrir Njarðvík í leikhléi. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson sló eign sinni á upphaf leiksins og var með 20 stig og 6 fráköst í leikhlé en Adam Eiður Ásgeirsson tók svo við keflinu í Njarðvíkurliðinu þegar líða tók á fyrri hálfleik, setti 15 stig í röð og var með 19 stig og 2 fráköst í hálfleik.
Þórir Guðmundur var fljótur að salla niður sex stigum fyrir KR í upphafi síðari hálfleiks og röndóttir opnuðu síðari hálfleikinn með 15-5 áhlaupi á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta. Eyjólfur Ásberg Halldórsson gerði fimm lagleg stig í röð fyrir KR-inga sem komust í 43-40 en þá tóku Njarðvíkingar leikhlé.
Einar Árni Jóhannsson hefur greinilega komið við kauninn í sínum mönnum sem svöruðu áhlaupi með sínu eigin og taldi það 7-0 og komust Njarðvíkingar í 43-47 og tók Bojan Desnica þjálfari KR leikhlé fyrir sína menn þegar 1.22mín lifðu af þriðja leikhluta.
Þórir Guðmundur færði KR örlítið nærri er hann svo lokaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan 48-53 fyrir Njarðvík fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Í fjórða leikhluta gekk flest allt upp í herbúðum Njarðvíkinga, boltinn flaut vel á milli manna sem voru óeigingjarnir og auk Adams áttu þeir Snjólfur, Jón Arnór og Gunnlaugur flotta spretti fyrir Njarðvíkinga. Í röðum KR-inga voru of fáir ógnandi, flestar sóknir fóru í gegnum Þóri sem er frábær leikmaður og gerði 39 stig í dag en það dugði ekki til. Lokatölur 77-64 Njarðvík í vil.
Adam Eiður besti maður úrslitaleiksins ásamt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ