spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaNjarðvík í 2. sætið með stórsigri gegn Blikum

Njarðvík í 2. sætið með stórsigri gegn Blikum

Njarðvík bauð Breiðablik í kennslustund í Ljónagryfjunni í kvöld í Subway-deild karla. Í fyrsta leikhluta var stórskotasýning beggja liða sem snerist síðar upp í einstefnu heimamanna sem unnu öruggan 120-84 sigur.

Blikar voru hvergi bangnir á upphafsmínútunum í Ljónagryfjunni og komust í 19-22 þar sem Snorri Vignisson var að sýna lipra takta. Dwayne Ogunleye var beittur hjá heimamönnum með heil 18 stig í fyrsta leikhluta en væntanlega hafa þjálfarar liðanna einhverja skoðun haft á þessum fyrsta leikhluta sem fór 42-32 fyrir Njarðvík og kannski viðbúið að stoppað yrði í einhver göt í vörninni.

Njarðvíkingar linntu ekki látum í öðrum leikhluta eftir fimm mínútna leik var munurinn kominn yfir 20 stig, staðan 59-35 Njarðvík í vil og enn fimm mínútur til hálfleiks. Snjólfur Marel Stefánsson kom ferskur inn af Njarðvíkurbekknum og lét vel til sín taka í leikhlutanum. Orkan sem Blikar komu með inn í leikinn virtist eftir 15 mínútna leik vera að mestu horfin. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 73-48. Hellidemba sem Njarðvík setti yfir gesti sína en fengu vissulega á sig tæp 50 stig svo þennan fyrri hálfleikinn fékk varnarleikur liðanna hvíld.

Dwayne Ogunleye var með 24 stig í hálfleik hjá Njarðvík og Chaz Williams 19 en hjá Blikum var Ólafur Eyjólfsson með 14 stig. 25 stiga munur í hálfleik og fátt sem benti til annars en að öruggur Njarðvíkursigur væri í uppsiglingu.

„Þið sem eruð enn að horfa, það er bara takk frá mér,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson lýsandi Stöð 2 Sport eftir að þriðja leikhluta lauk. Staðan var þá orðin 100-63 Njarðvík í vil og allur fjórði leikhluti eftir. Henry verður sjaldan fótaskortur á tungunni en hann vissi sem var, þessi viðureign var öll og lokatölur reyndust 120-84.

Dwayne Ogunleye hafði hægt um sig í síðari hálfleik og lauk leik með 27 stig fyrir Njarðvík, Chaz 24 og 10 stoðsendingar og Þorvaldur Orri bætti við 20 stigum. Snjólfur Marel Stefánsson var einnig flottur með 12 stig og 7 fráköst af bekknum. Zoran lauk leik með 20 stig fyrir Blika og næstur honum var Ólafur Eyjólfsson með 19 stig.

Eins og áður hefur komið fram víða þá eru Blikar fallnir og leika því í 1. deild á næstu leiktíð. Njarðvíkingar hinsvegar komu sér upp í 2. sæti deildarinnar með sigrinum í kvöld og eiga því möguleika í baráttunni um deildarmeistaratitilinn. Njarðvík með 30 stig en Valur 32 þegar 4 stig eru eftir í pottinum. Það eru risaleikir framundan hjá Njarðvík sem mæta Keflvíkingum í næstu umferð eftir bikarhlé og í lokaumferðinni fá þeir Val í heimsókn í Ljónagryfjuna.

Tölfræði leiksins

Gangur leiksins:

19-19, 42-32

56-35, 73-48

93-57, 100-63

112-68, 120-84

Myndir/ Skúli Sig

Fréttir
- Auglýsing -