spot_img
HomeFréttirNjarðvík einum sigurleik frá Íslandsmeistaratitli

Njarðvík einum sigurleik frá Íslandsmeistaratitli

Njarðvík kom sér í lykilstöðu í baráttunni um íslandsmeistaratitilinn með góðum sigri á Haukum í Schenker höllinni í dag.  Leikurinn var hnífjafn framan af en þegar það leið á leikinn tóku gestirnir af skarið og uppskáru 15 stiga sigur, 56-74.  Shanae Baker-Brice fór fyrir gestunum og skoraði 27 stig, hirti 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en Lele Hardy var ekki langt undan með 20 stig, 20 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta.  Petrúnella Skúladóttir átti einnig mjög góðan leik fyrir Njarðvík og skoraði 10 stig.  Í liði Hauka var Jence Ann Rhoads stigahæst með 16 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar en næstar á eftir henni komu Tierny Jenkins með 15 stig og 12 fráköst og Margrét Rósa Hálfdánardóttir með 14 stig og 6 fráköst.  
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og liðin voru augljóslega nokkuð varkár á upphafsmínútunum.  Það voru þó Haukar stem tóku af skarið og höfðu fljótlega náð fimm stiga forskoti, 7-2.  Njarðvík tók þá við sér og skoruðu 16 stig gegn næstu þremur stigum Hauka og komust í 10-18 áður en Haukar svöruðu fyrir sig með seinustu tveimur stigum fyrsta leikhluta, 12-18.  

 

Njarðvík hélt uppteknum hætti í upphafi annars leikhluta og höfðu náð góðum tökum á leiknum.  Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, tók þá leikhlé í stöðunni 18-24.  Við það vöknuðu Haukar til lífsins og höfðu náð forskoti gestana niður í 2 stig fljótlega eftir það.  Haukar fengu svo nokkur tækifæri til þess að jafna leikinn en það tókst ekki.  Margrét Rósa Hálfdánardóttir átti mjög góðan kafla fyrir Hauka og skoraði 7 stig í röð fyrir heimastúlkur.  Njarðvík gaf þó ekkert eftir og var einu stigi yfir þegar flautað var til hálfleiks, 30-31.  

 

Stigahæst í liði Njarðvíkur í hálfleik var Shanae Baker-Brice með 15 stig en næstar voru Lele Hardy með 6 stig og Petrúnella Skúladóttir með 5 stig.  Í liði Hauka var Tiernu Jenkins stigahæst með 11 stig en næstar voru Margrét Rósa Hálfdánardóttir með 10 stig og María Lind Sigurðardóttir með 5 stig.  

 

Seinni hálfleikur byrjaði nokkuð rólega og hvorugt liðið náði afgerandi forskoti.  Liðin skiptust á að skora og þar af leiðandi leiða leikinn.  Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu Haukar eins stigs forskot, 38-37.  Það var svo ekki fyrr en undir lok þriðja leikhluta sem Njarðvík náði frumkvæðinu í leiknum og leiddu með 3 stigum þegar einn leikhluti var eftir, 44-47.  

 

Það voru Haukar sem byrjuðu fjórða leikhluta betur og voru fljótt komnar aftur yfir, 50-49.  Njarðvík lét það ekki slá sig útaf laginu og náðu nokkrum stolnum boltum sem skiluðu fljótum og auðveldum stigum.  Stemmingin á pöllunum var augljóslega að smitast inná völlinn því Njarðvíkurstelpur hreinlega völtuðu yfir Hauka á stuttum kafla og voru komnar með 10 stiga forskot, 51-61.  Það þurfti ekki nema nokkrar mínútur af einbeitingarleysi hjá Haukum og Njarðvík nýtti sér það til fullnustu.  Eftir þennan kafla var alltaf ljóst hvoru megin sigurinn færi.  Haukar reyndu hvað þær gátu að minnka muninn en ekkert gekk og á endanum hafði Njarðvík 15 stiga sigur, 56-71.  

 

Njarðvík getur því tryggt sér íslandsmeistaratitilinn með sigri í Ljónagrifjunni á miðvikudaginn næstkomandi.  

Myndasafn frá Schenkerhöllinni eftir Tomasz Kolodziejski 

mynd : [email protected]
umfjöllun : [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -