spot_img
HomeFréttirNjarðvík blæs á spádómana með sigri

Njarðvík blæs á spádómana með sigri

Í kvöld áttust við í Ljónagryfjunni heimamenn í Njarðvík og gestirnir í KR í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Domino´s deildarinnar. KR með forystu 2-1 í einvíginu en síðasti leikur var aldrei spurning þar sem KR leiddi frá upphafi til enda. Ljónagryfjan var troðfull af stuðningsmönnum liðanna sem hafa verið frábærir á öllum leikjum liðanna. Pavel Ermolinskij meiddist í upphitun leiksins og spilaði því ekki og munaði þar um minna fyrir gestina.

Njarðvík byrjaði leikinn eins og spretthlaupari upp úr startblokkunum því þeir gjörsamlega áttu leikinn í byrjun bæði sóknarlega og varnarlega. 14 fyrstu stig leiksins skoraði Njarðvík á meðan ekkert gekk upp hjá gestunum í KR. Maciej Baginski og Jeremy Atkinson stjórnuðu stigaskori heimamanna. Varnarlega voru Njarðvíkingar frábærir en Haukur Helgi var með góðar gætur á Craion til að byrja með ásamt því sem fráköstin voru heimamanna bæði sóknar og varnarlega. KR komst fyrst á blað í leiknum þegar 4:50 mín voru eftir af leikhlutanum en Craion setti þá niður körfu og víti að auki. Hægt og bítandi fóru gestirnir þó að draga á og með góðu áhlaup í lokin náði KR vélin að vinna upp muninn og koma honum úr 14 stigum niður í 5  stig  þegar leikhlutanum lauk og var þá staðan 19-14.

Þessi magnaða byrjun heimamanna virtist taka sinn toll úthaldið því í öðrum leikhluta tóku gestirnir völdin smá saman. Þeir hægðu á leiknum og fóru að keyra á kerfi sem vörn Njarðvíkur var illa að ráða við ásamt því sem þeir fóru að rífa niður mikilvæg fráköst. Þegar um 3. mínútur voru liðnar af leikhlutanum voru KR-ingar búnir að jafna og skömmu síðar komust þeir yfir með frábærri 3.stiga körfu frá Helga Má 24-27. Helgi bætti svo við í kjölfarið annarri 3.stiga körfu og kom þeim í 24-30 sem kórónaði 11-0 áhlaup þeirra. Liðin skiptust á að skora en KR var komið með yfirhöndina á meðan ekkert gekk hjá heimamönnum í Njarðvík þar sem einstaklingsframtakið var orðið meira sóknarlega og boltinn hættur að fljóta eins og hann gerði í byrjun leiks. Þegar leikhlutanum lauk var KR komið með 8 stiga forskot 34-42.

Þriðji leikhluti byrjaði svipað og sá fyrsti þar sem Njarðvík tók öll vödlin á vellinum. Í stöðunni 36-45 kom 12-0 áhlaup hjá Njarðvík þar sem Logi Gunnars fór mikinn með tvær 3. stiga körfur með stuttu millibili. Með þessu áhlaupi komust þeir yfir 48-45 en KR með Brynjar Þór í fararbroddi var aldrei að fara sleppa tökunum alveg á leiknum. Liðin skiptust á að skora en Jeremy Atkinson fór mikinn í stigaskori hjá Njarðvík og setti hann niður 13 stig í leikhlutanum sem Njarðvík vann 26-12 og leiddu þeir fyrir lokaleikhlutann 60-54.

Lokaleikhlutinn var æsispennandi en liðin skiptust á að skora til að byrja með. Craion fór mikinn í byrjun en hann setti niður 9 stig á stuttum tíma. Maciej Baginski setti niður 3. stiga körfu og kom Njarðvík í 65-63. Þessu svaraði Craion með góðri körfu. Þegar hér er komið við sögu voru 5:55 mín eftir af leiknum en þá er eins og lok hafi verið sett á körfurnar því bæði lið áttu í mestum vandræðum með að koma boltanum ofaní. Varnir liðanna voru fínar en töluvert var flautað af villum á þessum tíma. Darri Hilmars fékk til að mynda sína 5 villu dæmda á sig fyrir litlar sakir en hann sendi með henni Jeremy Atkinson á línuna. Kappinn setti niður bæði vítin og kom Njarðvík í 67-65 en þetta voru fyrstu stigin í leiknum í rúmar 4mínútur. Í næstu sókn KR braut Oddur Rúnar á Helga Má og fékk hann sína fimmtu villu þar með. Helgi Már fór á línuna og setti niður annað vítið staðan 67-66. Í næstu sókn setur Logi Gunnarsson svo risa stóra 3. stiga körfu þegar 47 sekúndur eru eftir á klukkunni og kemur Njarðvík í 70-66. Má segja að þessi karfa hafi farið langt með að klára leikinn. Craion skoraði í næstu sókn KR en karfa frá Atkinson þegar 20 sekúndur voru eftir skellti þessu í lás fyrir heimamenn sem unnu leikinn 74-68 eftir körfu frá Ólafi Helga í blálokin. Frábær leikur í Ljónagryfjunni í kvöld og heldur sigur Njarðvíkur þeim á lífi í einvíginu því staðan er 2-2 og þarf því oddaleik til að útkljá þetta rétt eins og í fyrra.

Atkvæðamestir Njarðvík: 29 stig/ 15 fráköst/ 4 stolnir, Maciej Baginski 17 stig/ 5 fráköst, Logi Gunnars 16 stig/5 fráköst, Haukur Helgi 5 stig/ 8 fráköst/ 8 stoðsendingar.

Atkvæðamestir KR: Michael Craion 28 stig/ 12 fráköst/ 3 blokk, Brynjar Þór 14 stig/ 5 fráköst/ 3 stoðsendingar, Darri Hilmars 12 stig, Helgi Már 9 stig/ 13 fráköst.

Haukur Helgi Pálsson og Oddur Rúnar Kristjánsson leikmenn Njarðvíkur spjölluðu svo saman eftir leik á Twitter:

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Skúli Sigurðsson
Umfjöllun – Árni Þór Ármannsson
 

 

Fréttir
- Auglýsing -