spot_img
HomeBikarkeppniNjarðvík bikarmeistari í unglingaflokki karla

Njarðvík bikarmeistari í unglingaflokki karla

KR og Njarðvík tókust á í Geysisbikarúrslitum í unglingaflokki karla í dag. Liðin skiptust á að leiða og hvorugt lið komst meira en tveim körfum yfir. Það voru síðan Njarðvíkingar sem enduðu leikhlutann betur. Staðan eftir fyrsta leikhluta 16 – 22 Njarðvík í vil.

Njarðvíkingar héldu KR í hæfilegri fjarlægð framan af öðrum leikhluta. En KRingar komu mjög sterkir inn síðustu 3 mínúturnar og þegar rúmlega 1 og hálf mínúta var eftir voru þeir búnir að rífa niður forystu Njarðvíkinga í 1 stig. Andrés Ísak Hlynsson átti stóran þátt í endurkomu KRinga, en hann raðaði niður stigum í öðrum leikhluta. Njarðvíkingar náðu að setja síðustu körfuna og staðan í hálfleik 44 – 48 Njarðvík í vil.

KRingar jöfnuðu leikinn í byrjun þriðja leikhluta. En Njarðvíkingar komu sér hægt og rólega aftur í þægilega stöðu og leiddu með 8 stigum þegar um 3 og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum. Njarðvíkingar áttu svakalegar lokasekúndur þar sem Arnór Sveinson tróð og Snjólfur komst inn í innkast og Jón Arnór skoraði. Staðan fyrir fjórða leikhluta 61-72 Njarðvík í vil.

KRingar sóttu fast af Njarðvíkingum sem héldu vel á spilunum og héldu þeim vel frá sér. 3 KRingar fóru út af með 5 villur í fjórða leikhluta. Þegar líða fór á leikhlutann sigldu Njarðvíkingar lengra fram úr Kringum og tryggðu sér góðan sigur og bikarmeistaratitilinn. Lokatölur 88 – 104.

Byrjunarlið:

KR: Benedikt Lárusson, Þórir Lárusson, Ólafur Þorri Sigurjónsson, Orri Hilmarsson, Alfonso Birgir Söruson Gomez.

Njarðvík: Snjólfur Marel Stefánsson, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson, Adam Eiður Ásgeirsson, Arnór Sveinsson og Veigar Páll Alexandersson.

Þáttaskil:

Sannfærandi seinni hálfleikur tryggði Njarðvík titilinn.

Tölfræðin lýgur ekki:

Njarðvíkingar hittu betur alstaðar á vellinum og rifu niður 22 fleiri fráköst en KR.

Hetjan:

Hjá KR voru Orri Hilmarsson og Benidikt Lárusson fínir og Andrés Ísak Hlynsson átti mjög góðan leik, en hann kom af bekknum og var með 26 stig og 9 fráköst.

Í liði Njarðvíkur áttu þeir Adam Eiður Ásgeirsson, Snjólfur Marel Stefánsson, Veigar Páll Alexandersson allir mjög góðan leik. Arnór Sveinsson kom sterkur af bekknum og setti 24 stig og tók 7 fráköst. En ótvíræður maður leiksins og besti maður vallarins var Jón Arnór Sverrisson sem setti 26 stig, tók 16 fráköst, 12 stoðsendingar og stal boltanum 4 sinnum. Örugg þrenna hjá þessum meistara.

Kjarninn:

KRingar voru mjög sannfærandi í fyrir hálfleik en það reyndist þeim ekki nóg því Njarðvíkingar voru miklu meira sannfærandi eftir hálfleik og unnu að lokum sannfærandi sigur. Í báðum liðum eru leikmenn sem eru fyrir löngu byrjaðir að stela mínútum hjá meistaraflokk og maður getur ekki annað en verið spenntur fyrir framtíð körfuboltans eftir að hafa horft á þessa sýningu í dag.

Tölfræði

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtal við lykilleikmann leiksins:

 

Fréttir
- Auglýsing -