Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í unglingaflokki karla eftir öruggan 87-65 sigur á Stjörnunni í kvöld en viðureign liðanna fór fram í Röstinni í Grindavík. Úrslitaleikurinn fór fram í kvöld þar sem töf varð á keppni í unglingaflokki karla sökum kærumála. Elvar Már Friðriksson lék sinn síðasta leik fyrir UMFN um óráðna framtíð þar sem hann er á leið í háksólanám í Bandaríkjunum og kvaddi hann félagið með titli og þrennu eða 19 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar og var einnig valinn besti maður úrslitaleiksins.
Jafnt var á með liðunum framan af leik en Njarðvíkingar stungu af í síðari hálfleik og var í raun um einstefnu að ræða. Fjórir liðsmenn Njarðvíkinga voru með 11 stig eða meira í leiknum, Ágúst Orrason gerði 21 stig og tók 7 fráköst, Elvar Már bætti við þrennu með 19 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar og þá var Maciej Baginski með 14 stig og 11 stoðsendingar. Jón Arnór Sverrisson átti einnig sterka innkomu með 11 stig. Hjá Stjörnunni voru bræðurnir Dagur og Daði Jónssynir illir viðureignar, Daði með 17 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar, Dagur með 8 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar og Sæmundur Valdimarsson gerði 14 stig og tók 11 fráköst.
Mynd/ ÁG: Bikarmeistarar Njarðvíkur í unglingaflokki ásamt þjálfara sínum Einari Árna Jóhannssyni og sjúkraþjálfaranum Rafni Alexander Júlíussyni.