spot_img
HomeFréttirNjarðvík áfram í undanúrslit Powerade bikarsins eftir framlengdan leik gegn Keflavík

Njarðvík áfram í undanúrslit Powerade bikarsins eftir framlengdan leik gegn Keflavík

Njarðvík vann baráttu sigur á bikarmeisturunum úr Keflavík í frábærum leik. Þvílík barátta var á vellinum þar sem hvorugt liðið gaf eftir. Leikurinn fór 78-72 fyrir Njarðvík eftir framlengdan leik, en þær áttu framlenginguna og halda því í fjögurra liða úrslitin. Hjá Njarðvík var Lele Hardy með flotta tvennu, 19 stig og 20 fráköst en stigahæst var Shanae Baker-Brice með 20 stig. Keflavíkurmegin var Jaleesa Butler einnig með tvennu, 30 stig og 14 fráköst.
 
Frá fyrstu mínútu leiks var jafnt á öllum tölum og var barátta liðanna hin mesta. Liðin skiptust á að leiða í fyrsta leikhlutanum en Keflavík komst þó sex stigum yfir í lok fyrsta leikhlutans sem endaði 15-21. Í öðrum leikhluta byrja Njarðvík af miklum krafti og minnka muninn í eitt stig, 20-21, á stuttum tíma. Eftir það halda liðin áfram að skiptast á að vera yfir. Þegar þrjár sekúndur voru eftir af leikhlutanum er brotið á Hardy og fer hún á línuna þar sem hún setur bæði vítin ofan í og jafnar 36-36. Í síðustu sókn Keflavíkur er brotið á Birnu Valgarðsdóttur og hún á línuna þar sem hún setur bæði vítin ofaní svo að Keflavík fer með tveggja stiga forystu í hálfleik, 36-38. J. Butler var að spila mjög vel fyrir Keflavík og var hún komin með 18 stig en hjá Njarðvík var það Baker-Brice og var hún komin með 12 stig. Ólöf Helga Pálsdóttir og Baker-Brice voru komnar með 3 villur hjá Njarðvík og Pálína Gunnlaugsdóttir var einnig komin með 3 villur hjá Keflavík. Dómararnir ætluðu greinilega að hafa stjórn á leiknum og voru að flauta mikið, stundum of mikið.
 
Þriðji leikhlutinn byrjaði alveg eins og sá annar endaði þar sem liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar. Eftir rúman fjögurra mínútna leik fékk Baker-Brice sína 4 villu og hélt strax á tréverkið. Stuttu seinna var Ólöf og Pálína einnig komnar með 4 villur og allt í járnum. Keflavík kemst fjórum stigum yfir en það varir ekki lengi þar sem brotið er á Ínu Maríu Einarsdóttur í þriggja stiga skoti sem hún setur niður og fær víti að auki, 50-50, þegar tvær mínútur eru eftir.
 
Leikhlutinn endar svo 53-56 Keflavík í vil og allt stefndi í æsispennandi loka kafla leiksins. Í fjórða leikhluta byrjaði Keflavík betur og komast mest 10 stigum yfir, 55-65. Á þessum kafla er ekki mikið að gerast hjá Njarðvík sóknarlega þar sem Keflavík var að spila frábæra vörn. Þegar um þrjár mínútur voru eftir fær Pálína sína fimmtu villu sem var dýrkeypt fyrir Keflavíkurliðið.
 
Njarðvík ákveður svo að skella í lás í vörninni og var svæðisvörn þeirra frábær á þessum tíma. Keflavík fara að taka ótímabær skot í sókninni og nýtir Njarðvík sér það og komast í 66-67 þegar rétt rúm mínúta er eftir af leiknum. Þá gerist nokkuð sem undirrituð hefur bara aldrei séð gert á öllum mínum körfubolta ferli. Þegar 46 sekúndur eru eftir er brotið á Petrúnellu Skúladóttur úti á velli og dæma dómararnir tvö víti þar sem þær áttu að vera komnar í bónus. Áður en það er gert þá er farið á ritaraborðið þar sem að ekki var víst hvort að það væri rétt að Njarðvík var komið í bónus. Stuttu seinna er bónusinn leiðréttur og Njarðvík taka boltann inn. Keflavík stelur boltanum og heldur í sókn. Shanika Butler hendir boltanum út af þegar 8 sekúndur eru eftir og Njarðvík á boltann. En þá fara dómararnir aftur að ritaraborðinu vegna villunnar sem átti sér stað á Petrúnellu stuttu áður. Þeir leiðrétta dóminn þar sem þær voru víst komnar í bónus þrátt fyrir allt. Petrúnella fær því að taka vítin sem hún átti að fá 30 sekúndum áður. Hún setur annað vítið ofan í svo að haldið var í framlengingu, 67-67.
 
Njarðvíkur stelpurnar hreinlega áttu framlenginguna þar sem að þær stálu boltanum hvað eftir annað og komust í 75-67 áður en Keflavík náði að svara. En bitinn var aðeins of stór og Njarðvík fór með sigur í frábærum leik, 78-72, þar sem baráttan var gjörsamlega í fyrirrúmi.
 
Hjá Njarðvík var Baker-Brice að spila frábærlega í kvöld og endaði leikinn með 22 stig, 7 fráköst, 5 stolna og 4 stoðsendingar. Ótrúleg snerpa sem býr í henni og greinilegt að það megi ekki depla augunum og oft þegar verið er að spila vörn á hana því að hún verður horfin áður en þú nærð að opna augun aftur. Þá var Hardy frábær á lokasprettinum og endaði með 19 stig, 20 fráköst, 4 stolna og 3 stoðsendingar. Pétrúnella Skúladóttir var síðan með 17 stig. Hjá Keflavík var Jaleesa Butler með 30 stig, 14 fráköst og 6 stolna og Pálína Gunnlaugsdóttir var með 15 stig og 5 fráköst.
 
 
Umfjöllun – [email protected]   
Fréttir
- Auglýsing -