spot_img
HomeBikarkeppniNjarðvík áfram í átta liða úrslit VÍS bikarsins eftir sigur í Forsetahöllinni

Njarðvík áfram í átta liða úrslit VÍS bikarsins eftir sigur í Forsetahöllinni

Lið Álftaness mætti úrvalsdeildarliði Njarðvíkur í sextan liða úrslitum VÍS bikarkeppni karla í Forsetahöllinni á Álftanesi. Njarðvík vann góðan sigur, 84-100. Eftir leikinn eru Njarðvíkingar komnir í átta liða úrslit VÍS bikarsins.

Gangur leiks
Njarðvíkingar voru sigurstranglegri fyrir leikinn og byrjuðu leikinn frábærlega. Munurinn var skýr á liðunum og náðu Njarðvíkingar forskotinu snemma og komust 11 stigum yfir. Dedrick Deon Basile leikmaður Njarðvíkur fór mikinn og refsaði Álftnesingum fyrir slæman varnarleik. Njarðvíkingar hreyfðu boltann vel og náðu í auðveldar körfur. Staða í lok leikhluta 26-11. Í öðrum leikhluta áttu heimamenn erfitt uppdráttar og komust aldrei í takt við leikinn. Njarðvíkingar mættu hins vegar heldur betur til leiks og reyndist reynslan í Fotios Lampropoulos þeim dýrmæt. Eysteinn Bjarni, leikmaður Álftaness, lenti í villuvandræðum og fékk þriðju villuna dæmda á sig snemma í leikhlutanum. Staða 31-59 Njarðvíkingum í vil þegar liðin héldu til búningsherbergja.

Njarðvíkingar mættu enn og aftur kraftmiklir til leiks og voru sannfærandi í aðgerðum sínum, bæði sóknarlega og varnarlega. Þeir opnuðu völlinn mjög vel fyrir skytturnar og spiluðu léttleikandi sóknarleik. Staða 46-83 fyrir Njarðvík.

Í fjórða leikhluta breyttist leikurinn alveg. Bekkurinn hjá Álftanesi skilaði góðu framlagi og sótti af mikilli ákefð á Njarðvíkingana. Heimamenn komust á 8-0 áhlaup og unnu forskotið niður jafnt og þétt. Ungu leikmennirnir í herbúðum Álftaness spiluðu vel og börðust saman sem lið. Forskot Njarðvíkur var þó svo mikið að erfitt var að vinna það upp. Lokatölur 84-100 Njarðvíkingum í vil.

Tölfræðin lýgur ekki
Það eru nokkrir hlutir sem vöktu athygli. Það sem stóð mest upp úr var tölfræði Dedrick Basile í leiknum. Hann var með 100% nýtingu og þar af leiðandi 11/11 í skotum.

Atkvæðamestir
Atkvæðamestur í liði Álftnesinga var Isaiah Coddon sem skoraði 17 stig.
Besti leikmaður Njarðvíkur var Dedrick Deon Basile með 25 stig og 10 stoðsendingar. Einnig var ánægjulegt að sjá að Maciek Baginski var kominn aftur. Hann skilaði 18 stigum.

Hvað svo?
Heimamenn mæta næst Haukum á Ásvöllum í toppslag 1. deildar föstudaginn 5. nóvember klukkan 19:30 sem verður mikil skemmtun.


Njarðvík mætir Tindastóli í Subway-deild karla föstudaginn 5. nóvember í Ljónagryfjunni klukkan 20:15 sem verður fróðlegur leikur.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtal / Gunnar Bjartur

Fréttir
- Auglýsing -