Útisigrar var þemað í rimmu Stjörnunnar og Njarðvíkur þetta sinnið. Oddaleikurinn sem liðin buðu upp á í kvöld var vafalítið einhver besti leikur tímabilsins í alla staði, háspenna, gríðarleg stemmning í Ásgarði og baráttan í algleymingi þar sem Njarðvíkingar tryggðu sér farseðilinn í undanúrslit með sterkum lokaspretti. Jeremy Atkinson gerði fyrrum liðsfélögum sínum í Stjörnunni skráveifu með 20 stig og 10 fráköst en Coleman var stigahæstur hjá Stjörnunni í kvöld með 24 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.
Njarðvíkingar halda því inn í undanúrslit þar sem þeir mæta KR annað árið í röð og sagan endurtekur sig líka í hinu undanúrslitaeinvíginu þar sem Haukar og Tindastóll mætast en í þetta skiptið eru Haukar með heimaleikjaréttinn.
Hart var barist frá fyrstu mínútu og jafnt á öllum tölum, stemmningin í Ásgarði eins og best verður á kosið og magnaður leikur. Skotnýting liðanna var samt við frostmark en Oddur Rúnar Kristjánsson gerði fyrsta þrist Njarðvíkinga þegar hann kom gestunum í 15-16 með erfiðu skoti yfir Coleman sem fór yfir og svaraði með villu og körfu að auki. Coleman missti vítið og Njarðvíkingar leiddu svo 17-18 eftir fyrsta hluta.
Haukur Helgi Pálsson tók Njarðvíkinga á bakið í upphafi annars leikhluta og grænir gestirnir komust í 28-37 þar sem Maciek Baginski skellti niður tveimur sterkum þristum með skömmu millibili. Heimamenn létu þó ekki henda sér af merkinni og minnkuðu muninn í 36-39 fyrir leikhlé.
Kaflaskiptur fyrri hálfleikur, hart barist og spennan mikil en Njarðvíkingar virtust að minnsta kost ekki láta hana angra sig á vítalínunni, 13-13 í fyrri hálfleik.
Mikil vinnsla var á Jeremy Atkinson í liði Njarðvíkinga í fyrri hálfleik, 11 stig og 7 fráköst og þá var Haukur Helgi Pálsson sömuleiðis með 11 stig og 5 fráköst. Hjá Stjörnunni var Shouse með 11 stig og Tómas Heiðar 5.
Skotnýting liðanna í hálfleik
Stjarnan: Tveggja 36% – þriggja 38% – víti 75%
Njarðvík: Tveggja 41% – þriggja 22% – víti 100% (13-13)

Coleman opnaði með þrist fyrir Stjörnuna, heimamenn byrjuðu 5-0 og náðu svo forystunni 45-41 með 9-2 byrjun í þriðja leikhluta. Tómas Þórður Hilmarsson var í bullandi yfirvinnu í teigbaráttunni og Stjarnan komst svo í 47-44 eftir að hafa harkað þrjú sóknfarfráköst í röð. Heimamenn sem sagt í blússandi gír í upphafi síðari hálfleiks. Njarðvíkingar komu þó sínu að og Ólafur Helgi kom gestunum í 47-49 með þrist en Stjarnan leiddi 55-54 fyrir fjórða og síðasta leikhluta eftir að Shouse hafði splæst í kennileiti sitt, vinstrihandar sniðskot í traffík, mjúkur sem silki. Stjarnan vann þriðja leikhluta 19-15 og æsispennandi lokaleikhluti framundan.
Í fjórða leikhluta var allt á suðupunkti, nokkrum sinnum lá við áflogum og eftir eina byltuna var splæst í tvær tæknivillur á þá Ólaf Helga og Ágúst Angantýsson. Skömmu síðar flaug Ólafur Helgi af velli með fimm villur.
Í stöðunni 60-60 gekk í garð svakalegur kafli í leiknum, Oddur Rúnar Kristjánsson setti tóninn fyrir Njarðvíkinga með tveimur þristum í röð og staðan skyndilega orðin 62-66. Logi Gunnarsson kom svo skömmu síðar með annan þrist og kom Njarðvík í 63-71 en það dugði ekki til að brjóta heimamenn. Stjarnan með Coleman í broddi fylkingar náði að minnka muninn í 72-75 og aftur var Coleman á ferðinni þegar hann minnkaði muninn í 75-77 og Ásgarður fyrir margt löngu farinn gersamlega á hliðin!
Þegar 17,9 sekúndur voru eftir þurftu dómarar leiksins að skoða myndband eftir að boltinn barst út af vellinum og úr varð að Njarðvík var dæmdur boltinn. Þá var Stjarnan þegar komin í erfiða stöðu, stela boltanum strax eða brjóta tvisvar til að koma Njarðvík á línuna. Stjarnan náði að klukka inn fimmtu liðsvilluna og setja Njarðvík á línuna þegar 4,3 sekúndur voru eftir og Haukur Helgi Pálsson sannaði að hann má vel kalla „PressuPésa“ því bæði vítin fóru niður og Njarðvík komið í 75-79 þegar 4,3 sekúndur lifðu leiks. Von Stjörnunnar um þrist og eitthvað eftir það var því veik, þristurinn fór ekki niður og Njarðvíkingar fögnuðu sigri…þriðja útisigri sínum í röð í Ásgarði!
Viðureign Stjörnunnar og Njarðvíkur var vafalítið ein sú allra besta þessi 8-liða úrslit og hungraði margan í oddaleik og körfuboltaguðirnir bænhærðu marga með viðlíka spennuslag og var uppi á boðstólunum í Garðabæ í kvöld.
Eins og áður greinir eru það því KR-Njarðvík og svo Haukar-Tindastóll sem munu mætast í undanúrslitum.
Erfitt er að pikka einstaka menn út úr leik kvöldsins en Stjörnumegin heillaði Tómas Þórður Hilmarsson virkilega en hann skildi allt eftir á gólfinu í kvöld með framúrskarandi baráttu og Njarðvíkurmegin var Haukur Helgi að daðra við þrennuna.
Myndasafn – Bára Dröfn
Umfjöllun – Jón Björn



