Njarðvík tyllti sér aftur á topp Bónusdeildar kvenna í kvöld með öruggum 95-74 sigri á Stjörnunni í tíundu umferð Bónusdeildar kvenna. Heimakonur tóku stjórnina snemma og litu aldrei við og uppskáru sanngjarnan og stóran sigur. Danielle Rodriguez var stigahæst hjá Njarðvík með 23 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar en þær Diljá Ögn og Eva Wium gerðu báðar 17 stig í liði Stjörnunnar.
Eftir skell á heimavelli í síðasta leik mættu Njarðvíkurkonur grimmar til leiks í IceMar-Höllinni í kvöld. Njarðvíkingar náðu strax fínum tökum á leiknum, gott framlag úr fjölbreyttum áttum og pressuvörn sem var að gefa ágætlega. Þessi kokteill gerði það að verkum að Njarðvíkingar leiddu 53-34 í hálfleik.
Þrjár heimakvenna voru búnar að rjúfa 10 stiga múrinn í fyrri hálfleik (Dani, Hulda og Brittany) en Stjörnumegin var það Diljá sem var einna beittust með 13 stig í fyrri hálfleik. Njarðvíkingar náðu mest 24 stiga forskoti í fyrri hálfleik en fín rispa gestanna í lok fyrri hálfleiks lagaði stöðuna lítið eitt en vissulega brekka framundan hjá Garðbæingum í síðari hálfleik.

Stjörnukonur mættu ferskar inn í þriðja þó munurinn væri mikill, héldu uppi góðri baráttu en Njarðvíkingar voru ekki á því að láta forystuna af hendi og leiddu 75-57 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Garðbæingum tókst ekki að saxa á forskotið í fjórða að neinu ráði sem ógnaði forystu heimakvenna og voru það leikmenn í færri mínútum sem fengu að spreyta sig í lokin. Ein þeirra var hin unga og efnilega Inga Lea Ingadóttir sem skilaði tæpum fimm mínútum í Njarðvíkurliðinu í kvöld. Þetta var hennar þriðji leikur með Njarðvík en í fyrsta sinn sem hún snerti parketið, þessi unga og öfluga yngri landsliðskona kom til Njarðvíkinga frá Haukum í sumar en meiðsli hafa síðustu mánuði haldið henni fjarri vellinum.
Góður liðssigur Njarðvíkinga sem hafa nú 16 stig á toppi deildarinnar en skammt á hæla þeirra eru Keflavík, KR og Valur öll með 14 stig.

Hin unga og efnilega Inga Lea er komin á parketið á nýjan leik eftir meiðsli.



