spot_img
HomeFréttirNjarðvík 5. sæti

Njarðvík 5. sæti

12:30

(Logi Gunnarsson)

Óhætt er að segja að upplausnarástand hafi ríkt í Ljónagryfjunni að lokinni síðustu leiktíð og Njarðvíkingar vart sáttir við að detta út úr úrslitakeppninni í 8-liða úrslitum. Teitur Örlygsson var látinn fara sem þjálfari liðsins eftir eitt ár við stýrið og fjöldi leikmanna hélt á braut frá félaginu. Ein dýrasta gersemin í skartgripaskrýninu snéri þó aftur heim úr atvinnumennskunni og verður það í höndum Loga Gunnarssonar að stýra grænum í vetur ásamt Friðriki Stefánssyni.

Menn tóku andköf á Suðurnesjum þegar fyrirliði Keflavíkur, Magnús Þór Gunnarsson, ákvað að ganga til liðs við Njarðvíkinga en kappinn verður í leikbanni í kvöld þegar grænir mæta FSu í opnunarleik Íslandsmótsins á Selfossi. Annar Keflvíkingur fylgdi Magnúsi í Ljónagryfjuna en það er Sævar Sævarsson og kom hann úr röðum Blika í sumar.

Nú er tími kominn hjá Hirti Hrafni Einarssyni til að láta ljós sitt skína en Hjörtur er margreyndur úr yngri landsliðum Íslands en hann var ein aðalsprautan í nánast ósigrandi liði 1989 árgangsins í Njarðvík.

Friðrik Erlendur og Logi munu þó bera mestu þyngdina en fram að mánaðarmótum fá þeir einhverja hjálp í Slobodan Subasic sem vildi klára samningstímann sinn í Njarðvík þrátt fyrir að hafa verið sagt upp störfum. Eins og greint var frá í gær verður Slobodan með gegn FSu í kvöld

Valur Ingimundarson er kominn við kjötkatlana í Njarðvík eftir að hafa verið í fríi frá þjálfun síðasta vetur. Þar á undan þjálfaði hann Skallagrím og Tindastól með góðum árangri. Valur er einhver besti körfuknattleiksmaður landsins og miklar vonir bundnar við hans störf í Ljónagryfjunni.

Ritstjórn Karfan.is


(Friðrik Stefánsson)

Fréttir
- Auglýsing -