Jón Arnór Stefánsson skoraði 9 stig í gær fyrir spænska liðið CB Granada þegar liðið lagði Valladolid Rueda White 83-73 á heimavelli sínum í Granada. Jón lék rúma 21 mínútu í leiknum og var einnig með 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Richard Hendrix var stigahæstur í sigurliði Granada með 19 stig og 6 fráköst.
Eftir leik helgarinnar er Granada í 12. sæti deildarinnar með 11 sigra og 15 tapleiki eins og fjögur önnur lið. Barcelona situr sem fastast á toppnum með 24 sigra og 2 tapleiki og þar ekki langt undan eru erkifjendurnir í Real Madrid með 21 sigur og 5 tapleiki.



