spot_img
HomeFréttirNíu í röð hjá Sundsvall sem nú deila toppsætinu

Níu í röð hjá Sundsvall sem nú deila toppsætinu

Hlynur Elías Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson létu vel að sér kveða í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í kvöld þegar Sundsvall Dragons unnu sinn níunda deildarleik í röð. Sundsvall mætti á útivöll og hafði betur, 80-92, gegn Södertalje Kings en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar svo um þýðingarmikinn sigur var að ræða.
Hlynur var stigahæstur hjá Sundsvall í leiknum með 24 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta og setti niður 3 af 4 þristum sínum í leiknum. Jakob átti einnig sterkan dag með 16 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Sundsvall og LF Basket eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar þar sem bæði lið hafa 26 stig en LF Basket hefur betur innbyrðis gegn Sundsvall sem þó á leik til góða á LF. Jakob og Hlynur geta þó sáttir við unað enda klára þeir árið á háu nótunum með níu sigra í röð og á toppi deildarinnar.
 
Næsti leikur í sænsku deildinni er 3. janúar á nýja árinu.
 
Ljósmynd/Christian Johansson: Hlynur á ferðinni í sænsku úrvalsdeildinni.
 
Fréttir
- Auglýsing -