spot_img
HomeFréttirNiðurstöður: Svona lítur lokahópurinn út hjá lesendum

Niðurstöður: Svona lítur lokahópurinn út hjá lesendum

Fyrir nokkrum vikum tilkynnti KKÍ 24 manna æfingahóp fyrir landsliðsverkefni sumarsins sem endar á Evrópumóti landsliða (EuroBasket) í Finnlandi. Á dögunum var hópurinn fækkaður niður í 19 leikmenn sem tóku þátt í æfingaleikjum gegn Belgíu í síðustu viku. 

 

Þessi hópur verður skorinn niður í 14-15 manna hóp áður en liðið fer til Rússlands næsta miðvikudag. Að lokum verður hann svo endanlega skorið niður í 12 leikmenn sem munu fara með liðinu á lokamót EuroBasket í Finnlandi í haust.


Eins og gengur eru misjafnar skoðanir á landsliðsvalinu, hver eigi að fara með og hver á að vera eftir. Karfan.is setti því af stað skoðanakönnun þar sem lesendur fengu kost á að velja sinn 12 manna hóp fyrir Eurobasket. Þátttakan var nokkuð góð og voru þátttakendur alls 1221 sem svöruðu spurningakönnun. Einungis var hægt að kjósa einu sinni á hverja tölvu. 

 

Vert er að taka fram að skoðanakönnunin fór fram að mestu leyti áður en hópurinn var minnkaður og hafði það því lítil áhrif á niðurstöðurnar. Könnun þessi var einungis gerð til gamans og hefur því ekki áhrif á niðurstöðu landsliðsþjálfarans. 

 

Það er ljóst að Craig Pedersen og hans aðstoðarmenn eru ekki öfundsverðir að þurfa að fækka í hópnum og velja lokahópinn. Hér að neðan má reyna að setja sig í þeirra spor og velja lokahópinn. Ísland leikur í A-riðli með Póllandi, Frakklandi, Grikklandi, Slóveníu og gestgjöfunum frá Finnlandi. Liðið hefur leik þann 31. ágúst gegn Grikklandi. Þangað til mun liðið leika átta æfingaleiki gegn sterkum þjóðum á borð við Litháen, Rússland, Ungverjaland og Belgíu.

 

Margt áhugavert kemur fram í niðurstöðunum hér að neðan. Meðal annars að Jón Arnór Stefánsson er með nærri 99% atkvæða en einungis 13 atkvæði innihéldu ekki Jón Arnór. Svipaða sögu er að segja um efstu fimm leikmennina, þeir fá allir yfirgnæfandi kosningu. 

 

Síðasti maður inn í hópinn er Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur. Hann tók ekki þátt í Eurobasket 2015 en þrettándi leikmaður hópsins og þar með sá sem rétt missir af sæti í liðinu er Brynjar Þór Björnsson en hann var einmitt í þeirri stöðu fyrir síðasta lokamót Eurobasket. Brynjar er einungis 15 atkvæðum frá því að komast í hópinn en Sigurður Þorsteinsson sem er 14. maðurinn í hópnum er 36 atkvæðum frá lokahópunum í þessari könnun. 

 

Sigtryggur Arnar Björnsson var næst síðastur í kosningunni en er enn í landsliðshópnum þrátt fyrir það. Neðstur er Gunnar Ólafsson en hann hefur leikið erlendis í þrjú ár og því íslenskum körfuboltaáhugamönnum að nokkru ókunnur þessa stundina. 

 

Ef lokahópurinn yrði eins og lokahópur lesenda Karfan.is er ljóst að fjórir leikmenn munu leika í fyrsta skipti á Eurobasket. Þeir Kristófer Acox, Elvar Már Friðriksson, Ólafur Ólafsson og Tryggvi Snær Hlinason voru ekki með íslenska liðinu á Eurobasket 2015. Raunar var sá síðast nefndi tiltölulega ný byrjaður að stunda körfubolta á þeim tíma, það er önnur saga.

 

Niðurstöður skoðannakönnunarinnar má finna í heild hér að neðan. Leikmönnum er raðað í rétta röð eftir atkvæðafjölda. Prósentuna má finna hjá leikmönnum 1-14 en þar fyrir neðan má einungis sjá rétta niðurröðun leikmanna samkvæmt niðurstöðunni.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        

1 Jón Arnór Stefánsson 98,9%
2 Hlynur Bæringsson 97,1%
3 Haukur Helgi Pálsson 96,6%
4 Kristófer Acox 96,6%
5 Martin Hermannsson 96,1%
6 Hörður Axel Vilhjálmsson 93,5%
7 Tryggvi Snær Hlinason 90,8%
8 Logi Gunnarsson 85,3%
9 Ægir Þór Steinarsson 70,8%
10 Pavel Ermolinskij 66,3%
11 Elvar Már Friðriksson 43,7%
12 Ólafur Ólafsson 38,5%
13 Brynjar Þór Björnsson 37,3%
14 Sigurður Gunnar Þorsteinsson 35,5%
15 Jón Axel Guðmundsson  
16 Ragnar Ágúst Nathanaelsson  
17 Axel Kárason  
18 Kári Jónsson  
19 Dagur Kár Jónsson  
20 Matthías Orri Sigurðarson  
21 Kristinn Pálsson  
22 Pétur Rúnar Birgisson  
23 Sigtryggur Arnar Björnsson  
24 Gunnar Ólafsson  
Fréttir
- Auglýsing -