spot_img
HomeFréttirNiðurstaða lyfjaprófa eftir bikarúrslitaleik neikvæð

Niðurstaða lyfjaprófa eftir bikarúrslitaleik neikvæð

Eftir bikarúrslitaleik karla í síðasta mánuði voru leikmenn úr hvoru lið teknir í lyfjapróf eins og venja er. Niðurstöður þessarra lyfjaprófa liggja nú fyrir og er það staðfest að engin efni af bannlista lyfjaeftirlits ÍSÍ var að finna í sýnum leikmannanna. 
 
Þrálátur orðrómur var á kreiki allt frá því prófin voru tekin um að leikmaður KR hafi fallið á þessu prófi. Í ljósi staðfestra niðurstaðna prófanna hefur formaður körfuknattleiksdeildar KR sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna málsins:
 
Undanfarnar vikur hefur orðrómur gengið fjöllunum hærra í körfuboltaheiminum á Íslandi að einn af leikmönnum okkar hafi fallið á lyfjaprófi.  Stjórn körfuboltadeildar KR vill að gefnu tilefni koma því á framfæri að niðurstöður lyfjaprófs bárust fyrr í dag og fundust engin efni af bannlista í sýni hans.  Við höfum ávallt haft fulla trú á að niðurstaðan yrði þessi og vitum að viðkomandi leikmanni fannst erfitt að sitja undir þessum ásökunum.  Þessi umræða hefur ekki verið íþróttagreininni til framdráttar og þegar kemur að því að stuðla að framgangi körfuboltans á Íslandi þá erum við jú öll í sama liði.

Með körfukveðju
Guðrún Kristmundsdóttir
Formaður Körfuboltadeildar KR
Fréttir
- Auglýsing -