spot_img
HomeFréttir"Niðurlægingin algjör!"

“Niðurlægingin algjör!”

 Keflvíkingar hafa lokið keppni í úrvalsdeildum þetta árið og hljómurinn í Keflvíkingum eftir veturinn nokkuð þungur enda hefur það líklega aldrei gerst (án þess að hafa rýnt í tölfræðina) að báðum liðum (karla og kvenna) þeirra hefur verið sópað úr úrslitakeppni sama árið. Karfan.is forvitnaðist til varaformanns Keflavíkur Sævars Sævarssonar um liðin vetur, úrslitakeppni og framhaldið.  Sævar var ómyrkur í máli þegar hann játaði að úrslitakeppnin hafi verið þeim Keflvíkingum afar erfiður biti að kyngja.
 
Jæja tímabilinu búið hjá KEF væntanlega árangurinn ekki líkt og búist var við?
 
Nei, það sér og veit það hver heilvita maður að árangurinn er engan veginn sá sem búist var við þegar farið var af stað í haust. Við getum sagt að árangurinn í deildinni hafi verið á pari við væntingar. Karlaliðið styrkti sig talsvert fyrir tímabilið og annað sætið á eftir frábæru liði KR er flottur árangur. Kvennaliðið lendir í þriðja sæti sem vanalega teldist slappt hjá kvennaliði Keflavíkur en við vissum að tímabilið yrði erfitt þar í kjölfar þess að stór skörð voru höggvin í hópinn þegar Pálina María fór, Birna meiðist og Ingunn verður ólétt. Árangurinn í úrslitakeppninni er svo bara kapítuli út af fyrir sig og niðurlægingin algjör. Fátt meira um það að segja í raun.
 
 
Sumir stuðningsmenn nokkrir leyta nú svara með þjálfara liðsins Andy Johnston hvort tveggja ára samningur við hann verði riftur eftir árangurinn eða er von á Johnston aftur næsta vetur?
 
Við erum ekki komnir svo langt. Menn eru bara enn að melta þá staðreynd að bæði lið séu dottin út, eitthvað sem engum okkar datt í hug að gæti orðið raunin – hvað þá að fara út með þessum hætti!
 
 
Menn kannski enn í sárum sínum en er að einhverju leyti undirbúningur fyrir næsta tímabil hafin? Má búast við að bætt verður við leikmönnum eða eru einhverjar fyrirsjáanlegar breytingar í þeim efnum (Er von á Craion t.d. aftur eða Lewis) ?
 
Eins og ég segi þá erum við enn að melta það að vera komin í sumarfrí. Hins vegar er það staðreynd að við byrjuðum að undirbúa næsta tímabil fyrir þó nokkru síðan sem m.a. fólst í því að tryggja Guðmund Jónsson, Val Orra Valsson og Þröst Leó Jóhannsson lengur en aðeins eitt tímabil. Við erum með nokkrar hugmyndir í kollinum varðandi framhaldið og vonandi verða einhverjar þeirra að veruleika. Við munum hugsanlega bæta við okkur leikmönnum en við munum einnig horfa til þeirra leikmanna sem fyrir eru hjá klúbbnum. Við ræðum við Darrel Lewis áður en hann heldur heim og sjáum hver hugur hans er og þá munum við hlera Mike Craion líka. En eins og ég segi þá eru menn bara að melta þetta enn þá og því ekkert verið ákveðið. Það var enda ætlun mín að fylgjast með liðinu berjast um Íslandsmeistaratitilinn við KR fram á sumar svo þetta er eins og köld vatnsgusa framan í mann. Og til að bæta gráu ofan á svart getur maður ekki einu sinni huggað sig við gengi Manchester United því ekki eru þeir að gleðja mann blessaðir.
 
Fréttir
- Auglýsing -