,,Karakter, stolt og ástríða eru orð kvöldsins, við strákarnir komum hingað og náðum í sigur og það voru ekki margir sem höfðu trú á þessu. Við vorum tilbúnir að berjast og það gerðum við af hörku í kvöld,“ sagði Nick Bradford eftir sterkan sigur Keflavíkur í Stykkishólmi í kvöld. Bradford hrökk í gang á síðustu metrunum og lauk leik með 15 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Staðan í einvíginu er því 2-2 og oddaleikur í Keflavík á fimmtudag.
,,Strákarnir stigu vel upp í kvöld og ég átti kannski ekki minn besta leik en gerði mitt besta, við vorum með þónokkra sem léku frábærlega og þá er Keflavík erfitt viðureignar,“ sagði Nick en leikur kvöldsins var átakaleikur og býst Nick við að hið sama verði uppi á teningnum í oddaleiknum?
,,Alveg pottþétt, það sem gerist er að í leik eitt eru liðin að þreifa á hvoru öðru, annar leikurinn er svona hagræðing, þriðji leikurinn er stór og svo eru leikir fjögur og fimm mestu átakaleikirnir og leikurinn í kvöld var sá stífasti til þessa hvað varðar baráttu millum manna. Á fimmtudag verður jafnvel meiri barningur,“ sagði Nick en Keflvíkingar stokkuðu upp í sínum leik í kvöld, mættu til leiks með svæðisvörn.
,,Við vildum breyta þessu aðeins því þrír fyrstu leikirnir voru eins og því vildum við aðeins hrista upp í hlutunum og sjá hvernig Snæfell myndi bregaðst við og þeir svöruðu þessu ágætlega hjá okkur,“ sagði Nick en er pressan farin að segja til sín í einvíginu, sést það á hræðilegri vítanýtingu í kvöld?
,,Sjálfur man ég ekki eftir því hvort ég hafi farið á vítalínuna í kvöld en vítin snúast um einbeitingu og í þessum stóru leikjum skiptir það öllu máli hverjir séu einbeittir og leiki af mestum krafti.“



