spot_img
HomeFréttirNick Bradford skrifaði undir í dag

Nick Bradford skrifaði undir í dag

,,Það var áhugi frá liðum í Evrópu en hérna veit ég að hverju ég geng," sagði Nick Bradford í dag skömmu eftir að hafa skrifað undir samning við Njarðvíkinga um að leika með liðinu út leiktíðina.
Nick Bradford var eins og flestir vita látinn taka poka sinn í Finnlandi eftir að hafa haft ummæli um félaga sína í liðinu. ,,Njarðvíkingar sýndu mér áhuga eftir að ég varð laus allra mála í Finnlandi og þetta var gott tækifæri fyrir mig að koma aftur til Íslands því mér líður bara nokkuð vel hérna. Það hafði einnig mikið að segja að Siggi (Sigurður Ingimundarson) væri við stjórnvölinn hjá liðinu en ég tel hann líkast til besta þjálfara sem ég hef verið hjá í Evrópu og ég hef farið víða við. Svo eru Palli K og Maggi þarna líka sem ég hef spilað með þannig að ég ætti að smella ágætlega inní þetta," sagði Bradford einnig.  
 
En hvað er það sem hann er kominn hingað til að gera? ,,Nú auðvitað það sama og alltaf, vinna titla. Það var súrt að vera í öðru sæti í fyrra því það er nú einu sinni þannig að enginn man efttir þeim sem voru í öðru sæti, þannig að stefnan er bara sett á að vinna þá titla sem í boði eru."

Nick á spjalli við Guðjón Skúlason í Toyotahöllinni í dag
 
Bradford hefur spila gegn Njarðvík margoft og reynst leikmönnum erfiður en nú kemur hann til með að spila með nokkrum sem hann hefur háð rimmur við, er einhver sérstakur sem hann hlakkar til að spila með? ,,Frikki Stefáns, mig hefur alltaf langað að spila með honum því hann hefur nánast undantekningalaust reynst mínu liði erfiður þannig að það verður gott að hafa hann í mínu liði loksins. Svo er Gummi (Guðmundur Jónsson) maður að mínu skapi. Líkt og ég hefur hann gaman að því að taka "spjall"  miðjum leik og áttum við alltaf nokkrar "spjall stundir" þegar ég spilaði hér síðast. Við eigum eftir að smella vel saman held ég," sagði Nick Bradford 
 
Nú er að sjá hvort allir pappírar verði klárir fyrir mánudag þegar Njarðvíkingar taka á móti ÍR, en Bradford sagðist þrátt fyrir allt hafa skilið sáttur við finnska liðið og að þeir hafi gengið frá öllu sínu áður en kappinn fór frá Finnlandi. 
Fréttir
- Auglýsing -