spot_img
HomeFréttirNeyðarpistill - SKOTIÐ!

Neyðarpistill – SKOTIÐ!

 

Varð að skeiða inn á ritvöllinn í kjölfar atburða síðastliðinna daga í úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta. Skeið er kannski minn sísti gangur í fimmgangnum en ég sá ekki annað í stöðunni.

 

Fyrsta mál á dagskrá er auðvitað „SKOTIГ. Ef það er eitthvað skot í veröldinni sem á skilið greini er það skotið hans Kára Jónssonar. Það hefur kannski ekki verið hátt á áhorfendum risið í Keflavík í vetur en þegar 3,4 sekúndur lifa leiks og eitthvað hafnfirskt ungmenni, með minni hárvöxt í andlitinu en á stífbónuðum pung Egils Einarssonar, mætir á vítalínuna í Sláturhúsinu og þarf að hitta úr öllum þremur vítaskotunum sínum getið þið fullvissað ykkur um að desíbilin í húsinu hækka. Hafði það áhrif? Nei. Okkar maður fékk þá ákvörðun að svissa öllum skotunum. Og var hann hættur? Nei. Ef einhver vottur var af mælanlegum desíbilum í Sláturhúsinu um þetta leyti tókst drengnum endanlega að slökkva þau með ótrúlegustu körfu sem undirritaður hefur orðið vitni af. Þvílíkt #sinnep! Ekki einu sinni hörmuleg útfærsla á leikkerfi, ef leikkerfi skildi kalla það sem átti sér stað í innkasti heimaliðsins, dregur athyglina frá þessum prins! Þvílíkur prins þessi drengur en ætla má að hann taki við kóngstitlinum á næsta tímabili fari hann ekki í víking því á meðan Jón Arnór skröltir um parket, þó einfættur sé, tekur enginn þann titil af kauða. Verst í þessu öllu saman er svo auðvitað sú staðreynd að Haukar spila skemmtilegan körfubolta. Svo skemmtilegan og kynþokkafullan að getulausum mönnum hreinlega blýstendur í stúkunni að horfa á þetta, eitthvað sem hefði talist til tíðinda þegar karl faðir hans fór fyrir sama liði fyrir nokkrum hárum síðan. Sá gæi hafði þó svægi í lagi og er og verður alltaf uppáhalds Haukamaðurinn minn…

 

Næsta mál á dagskrá er auðvitað troðslan hjá Kristofer Acox yfir Natvélina. Að ekki skuli vera búið að kalla saman aga- og úrskurðarnefnd á neyðarfund til að setja Acox í bann er mér hulin ráðgáta. Hvernig má það vera að á árinu 2018 skuli allt samfélagið líta undan aðgerðarlaust? Getið þið ímyndað ykkur hvernig Natvélinni líður eftir þetta grófa andlega ofbeldi af hálfu Acox? Þetta kallar á myllumerki…

 

Þriðja málið sem nauðsynlegt er að drepa aðeins á er svo auðvitað endurköllun Helga Magg í KR. Hvergi annarsstaðar á hnettinum myndi stórveldi sem komið er í 4-liða úrslit í körfubolta láta sér detta það í hug að kalla til baka leikmann sem hefði ekki spilað körfubolta í 1-2 ár (man ekki hvort hætti í fyrra eða árinu áður og nenni ekki að googla það) En það er líka hvergi annarsstaðar í veröldinni sem þetta myndi heppnast, sem það mun klárlega gera hjá KR, enda er Helgi líklega betri leikmaður en 93% leikmanna deildarinnar þó hann myndi mæta vel sultaður um sig miðjan og 25% fita…

 

Að lokum ætla ég að synda aðeins á móti straumnum og óska eftir því að Ryan Taylor verði sýnd smá vægð. Þetta högg leit illa út. Um það deilir enginn. Það er þó erfitt að meta saknæmi í þessu máli, þ.e. hvort þarna hafi verið um ásetning eða gáleysi að ræða. Ég þykist vita að maður sem hefur æft með heiðarlegasta núlifandi Íslendingnum, sjálfum Sveinbirni Claessen hdl. – manni sem kemst næst því að lifa lífi sínu eftir mælikvarðanum um „bonus pater familias“, myndi aldrei af ásetningi framkvæma það brot sem hér um ræðir. Ég tel að þetta hafi verið algjört gáleysi og sem slíkt verðskuldi það einn leik í bann. Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að við fáum roooosalegan oddaleik, oddaleik sem við körfuboltaaðdáendur eigum skilið eftir það sem kann að verða „Svartidauði Suðurnesjanna“, þ.e. þegar Suðurnesjaliðunum var sópað úr leik og ekkert þeirra komst í 4-liða úrslit í fyrsta skipti. Sjabbilaw hefur dæmt í málinu, hendið á hann einum leik og höldum áfram með líf okkar…

 

Sævar Sævarsson

Fréttir
- Auglýsing -