spot_img
HomeFréttirNets senda Yi Jianlian til Wizards fyrir slikk - Geta boðið 30...

Nets senda Yi Jianlian til Wizards fyrir slikk – Geta boðið 30 milljónir í laun

New Jersey Nets skiptu í dag framherjanum Yi Jianlian til Washington Wizards fyrir framherjann Quinton Ross, en markmið Nets með þessum skiptum er að losa 3 milljónir dala af launaskrá áður en leikmannamarkaðurinn opnar nú um mánaðarmótin.
 
Nets hafa lengi hugsað sér gott til glóðarinnar þegar margir af bestu leikmönnum deildarinnar verða með lausan samning í sumar og eru nú með heilar 30 milljónir dala lausar á bókum sínum, líkt og Chicago Bulls, sem einmitt hentu Kirk Hinrich til Wizards á dögunum.
 
Wizards fá einnig ótiltekna peningaupphæð frá Nets, en forsvarsmenn liðsins segjast ánægðir með að fá ungan gæðaleikmann til sín. Jianlian er 22ja ára en hefur verið í deildinni í 3 ár. Hann var með 12 stig og 7 fráköst í leik í vetur, sem er hans besta frammistaða á ferlinum. Hann var valinn til Milwaukee Bucks en skipt þaðan eftir nýliðaárið.
 
Wizards segjast leggja höfuðáherslu á að fá unga og góða leikmenn til liðsins í stað þess að setja allt í að lokka til sín lausa leikmenn í framtíðinni, en þeir völdu einnig John Wall með fyrsta valrétt í nýliðavali ársins.
 
Fréttir
- Auglýsing -