8:47
{mosimage}
Valsmenn tóku á móti Breiðablik í toppslag 1. deildarinnar fyrr í gærkvöld. Blikar höfðu frumkvæðið allan leikinn og unnu nokkuð örugglega með 14 stigum, 78-92. Nemanja Sovic fór fyrir gestunum og skoraði 31 stig í leiknum en næstur var Tony Cornett með 19 stig. Hjá Valsmönnum var nýji bandaríski leikmaðurinn þeirra, Craig Walls stigahæstur með 17 stig, næstir voru Sigurður Tómasson með 15 stig og Rangar Gylfason með 14 stig.
Gestirnir úr Kópavoginum byrjuðu leikinn af krafti í kvöld og voru komnir með gott forskot strax eftir hálfan leikhlutann, 4-12. Þeir spiluðu fína vörn og sóttu hratt sem virtist fara illa með skipulag Valsmanna. Blikar héldu forskoti sínu út leikhlutann en þeir leiddu 14-21 þegar tvær mínútur voru eftir. Leikhlutinn endaði svo 16-23. Tvíeykið Nemanja Sovic og Tony Cornett voru öflugur frá upphafi en þeir voru með 15 stig samanlagt i fyrsta leikhluta.
Valsmenn tóku á það ráð í byrjun annars leikhluta að pressa allan völlinn og virtist sú vörn virka ágætlega en þegar Blikar komust að þriggja stiga línunni virtist vörnina klikka því þrátt fyrir að hafa mikið fyrir að koma boltanum þangað fóru þeir svo oft auðveldlega það sem eftir var að körfunni. Valsmenn klóruðu þó aðeins í bakkann um miðjan leikhlutann og minnkuðu muninn niður í 4 stig þegar minnst var og 4 mínútur liðnar af leikhlutanum. Fór þar Craig Walls mikinn en hann átti fína innkomu í öðrum leikhluta og er þar leikmaður sem á vafalaust eftir að styrkja Valsliðið í vetur. Þá tóku Blikar hins vegar aftur á rás og náðu aftur upp 10 stiga forskoti þegar mínúta var eftir af leiknum og leiddu með 7 stigum í háflleik, 41-48, eftir ævintýralegt þriggja stiga körfu frá Steingrím Ingólfssyni á lokasekúndunni.
Stigahæstir í hálfleik voru Nemanja Sovic með 15 stig, Tony Cornett með 9. Hjá Val voru Sigurður Tómasson, Ragnar Gylfason og Craig Walls allir með 9 stig.
Valsmenn tóku svo annað aðhlaup að forystu Blika í byrjun þriðja leikhluta og náði muninum niður í 4 stig eftir 2 mínútur, 46-50. Leikurinn spilaðist jafn næstu mínútur þangað til Blikar tóku á rás úr stöðunni 56-59 í 58-69 á einni mínútu og hreinlega slátruðu vörn Valsmanna. Það var því erfitt verkefni fyrir heimamenn að ætla að vinna upp 11 stig í fjórða leikhluta gegn gríðarsterku liði Blika.
Það kom svo á daginn að það var ógjörningur því Blikar héldu forskoti sínu allan leikhlutann þrátt fyrir mjög aggressive pressuvörn Valsmanna allan leikhlutann sem reyndu sitt besta til að minnka muninn. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var forskot gestanna 9 stig, 70-79 og fátt benti til þess að það myndi breytast. Valsmenn tóku tvö leikhlé þegar leið á síðari endann en ekkert breyttist og því varð 14 stiga sigur Breiðabliks staðreynd, 78-92. Það verður að teljast gríðarlegur styrkur Breiðabliks að hafa unnið bæði Val og FSu á seinustu vikum og þeir sigrar hafa unnist liðsheildinni en Tony Cornett og Nemanja Sovic sem fóru lítið í stigaskorun á móti FSu tóku leikinn í sýnar hendur í kvöld. Breiðabliksmenn eru þá búnir að tylla sér nokkuð örugglega á toppinn og virðast ætla að sigla lygnan sjó upp í úrvalsdeild.
Gísli Ólafsson
Mynd: Snorri Örn Arnaldsson



