spot_img
HomeFréttirNBA: Spurs burstuðu Nets

NBA: Spurs burstuðu Nets

09:03 

{mosimage}

 

(Það leynir sér ekki á svipbrigðum Vince Carter að honum var ekki skemmt gegn Spurs)

 

 

San Antonio Spurs áttu ekki vandræðum með að skella New Jersey Nets í NBA deildinni í nótt. Lokatölur leiksins voru 82-107 Spurs í vil en leikurinn fór fram í Continental Airlines Arena í New Jersey. Tim Duncan fór fyrir liði Spurs með 21 stig og 8 fráköst en næstur honum var Tony Parker með 19 stig. Vince Carter fór fyrir New Jersey með 18 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Nets tefldu fram vængbrotnuliði í gær þar sem vantaði þá Jason Kidd, Richard Jefferson og Nenad Krstic.

 

Meistarar Miami Heat lögðu Portland Trail Blazers nokkuð örugglega 104-85 og gerði Dwyane Wade 35 stig í leiknum og gaf 5 stoðsendingar. Zach Randolph var með 17 stig og 6 fráköst hjá Blazers.

 

Dallas Mavericks lönduðu naumum 93-99 útisigri gegn Milwaukee Bucks í Bradley Center í Milwaukee. Þjóðverjinn Dirk Nowitzki var nærri því búinn að landa þrennu er hann gerði 38 stig, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hjá heimamönnum í Bucks var Ruben Patterson með 20 stig en Ástralinn Andrew Bogut gerði 16 stig og tók 17 fráköst.

 

Memphis unnu New Orleans Hornets 108-104 og gerði Mike Miller 22 stig í liði Grizzlies en Pau Gasol náði fínni tvennu með 11 stig og 15 fráköst. Hjá Hornets Desmond Mason með 23 stig. Athygli vakti að Chris Paul gerði aðeins 5 stig í leiknum á tæpum 35 mínútum. Framlag hans hefur oft verið meira. Þá var Tyson Chandler í stuði við spjaldið er hann reif niður 23 fráköst og gerði alls 17 stig. Hans framlag dugði Hornets því miður skammt í nótt.

 

Spennan var gríðarleg í United Center í Chicago í nótt þegar Bulls tóku á móti Toronto Raptors. Chris Bosh tryggði gestunum frá Kanada sigur gegn Bulls 111-112 með tveimur vítaskotum þegar 2,1 ein sekúnda voru til leiksloka. Þetta var 28. deildarsigur Raptors í nótt en liðið vann aðeins 27 deildarleiki á síðustu leiktíð. Hetjan Bosh var með 25 stig og 14 fráköst fyrir Raptors en hjá Bulls var það Luol Deng sem setti niður 30 stig og tók 5 fráköst.

 

Houston Rockets lögðu Sacramento Kings 109-104 í framlengdum leik í Toyota Center í Houston. Tracy McGrady hrökk í gang á hárréttum tíma hjá Rockets en hann gerði 12 af 28 stigum sínum síðustu fjórar mínúturnar í venjulegum leiktíma og varpaði þannig skugga á stórleik Ron Artest hjá Kings sem gerði 39 stig og tók 8 fráköst. TMac gaf einnig 12 stoðsendingar í leiknum og er óhætt að segja að sigur Rockets hafi verið nokkuð afrek þar sem einir sjö leikmenn voru á meiðslalista fyrir leikinn í gær og þar á meðal Yao Ming sem er samt væntanlegur aftur í leikmannahóp Rockets skömmu eftir stjörnuhelgina í Las Vegas næstu helgi.

 

Eddy Curry gerði sigurstig New York Knicks eftir stoðsendingu frá Jamal Crawford á lokasekúndunum gegn LA Lakers. Knicks fóru með 106-107 sigur af hólmi í leiknum og færð Lakers sinn sjöunda tapleik í 26 heimaleikjum á þessari leiktíð. Venju samkvæmt var Kobe Bryant stigahæstur í liði Lakers, hann gerði 31 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hjá Knicks var Jamal Crawford með 24 stig en þeir Eddy Curry og Quentin Richardson gerðu báðir 19 stig hjá Knicks. Richardson var auk þess með 12 fráköst.

 

Mynd: AP

Fréttir
- Auglýsing -