spot_img
HomeFréttirNBA: Sigur í frumraun hjá Melo og Iverson

NBA: Sigur í frumraun hjá Melo og Iverson

11:17 

{mosimage}

 

Í nótt voru spilaðir 9 leikir í NBA deildinni. Fátt var um óvænt úrslit en augu flestra beindust að Denver Nuggets þar sem Carmelo Anthony og Allen Iverson voru í fyrsta sinn að spila saman.

 

Sjónvarpsleikur næturinnar á NBA TV var leikur Indiana Pacers (20-20) og Chicago Bulls (23-18). Tölfræðin var fyrir leikinn á bandi heimamanna í Indiana en þeir höfðu unnið síðustu 15 af 16 heimaleikjum á móti Chicago.

 

Með þá Ben Wallace, Ben Gordon og Andres Nocioni alla tæpa vegna meiðsla var fyrirséð að Chicago gæti lent í vandræðum með hið nýja lið Indiana. Það varð raunin og lenti Chicago í því að vera að elta allan leikinn og í hvert skipti sem þeir litu út fyrir að ætla að jafna leikinn svöruðu Indiana menn. Lokastaðan var 98-91 fyrir Indiana en þeir leiddu í hálfleik 60-43.

 

Hjá heimamönnum í Indiana var Jermaine O´Neal stigahæstur með 22 stig, Danny Granger setti 19 og í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu setti hinn 38 ára gamli Darrell Armstrong persónulegt met með 16 stigum, 10 stoðsendingum og 8 fráköstum og var valinn maður leiksins. Það má til gamans geta að fyrir þennan leik var Armstrong með 3.8 stig, 1.5 stoðsendingu og frákast að meðaltali á tímabilinu. Meiddur Ben Gordon fór fyrir Chicago liðinu í stigaskorun en hann skoraði 31 stig. Luol Deng skoraði 18 og hirti 8 fráköst.

 

Orlando með Grant Hill og Dwight Howard sem aðalmenn vann góðan útisigur á Cleveland 90-79. Hill skoraði 22 stig og tók 5 fráköst en Howard var með 18 stig og 13 fráköst. LeBron James lét lítið fyrir sér fara í liði Cleveland að þessu sinni en var þó engu að síður stigahæstur með 18 stig. Larry Hughes og Damon Jones gerðu 16 hvor.

 

Þrátt fyrir að hvorki Dwayne Wade né Shaquille O´Neal léku með Miami gegn New York í nótt áttu Miami ekki í miklum vandræðum í leiknum. Miami var 40-12 yfir eftir fyrstaleikhluta og eftir það var ekki aftur snúið. Lokatölur 101-83. Jason Kapano var stigahæstur hjá Miami með 22 stig og 5 fráköst en í liði New York skoraði Eddie Curry 26.

 

Sacramento vann New Jersey á heimavelli í spennandi leik sem endaði með minnsta mun, 88- 87. Það var Mike Bibby tryggði Sacramento sigurinn með körfu sekúndum fyrir leikslok.Ron Artest skoraði 21 stig fyrir Sacramento og bætti við 7 fráköstum. Hjá New Jersy var Jason Kidd með þrefalda tvennu eina ferðina enn, 18 stig, 10 stoðsendingar og 10 fráköst.

 

Leikur Denver og Memphis var fyrirfram áhugaverður í ljósi þess að þetta var fyrsti leikur Carmelo Antony og Allen Iverson saman eftir að hann síðarnefndi gekk til liðs við liðið í desember. Einnig var þetta fyrsti leikur Anthony eftir 15 leikja bannið sem hann hlaut fyrir slagsmálin á móti New York. Tvíeykið eru tveir af þremur stigahæstu mönnum deildarinnar og ekki voru allir á því þeir gætu báðir haldið upp þessu mikla skori. Þeir fóru þó báðir yfir 20 stigin, Anthony með 28 og Iverson 23. Marcus Camby sá um fráköstin að þessu sinni og hirti 17 stykki en Denver vann leikinn með 115 stigum gegn 98.

 

Hjá Memphis átti Pau Gasol góðan leik, með 23 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar.  Hann er þó búinn að óska eftir því að fara frá Memphis og gæti það hugsanlega gerst innan fárra vikna. Chicago eru eins og staðan er í dag taldir líklegastir til að fá hann í sínar raðir.

 

Í Kanada áttu heimamenn í Toronto auðveldan dag þar sem þeir unnu Charlotte auðveldlega 105-84. Chris Bosh skoraði 20 stig fyrir Toronto en hjá Charlotte settu þeir Gerald Wallace og Raymond Felton báðir 19 stig.

 

Kobe Bryant átti stórleik fyrir L.A. Lakers en hann skoraði 42 stig í 108-103 sigri á Golden State. Al Harrington spilaði vel fyrir Golden State og skoraði 30 stig.

 

Minnesota mátti sætta sig við tap á útivelli á móti Utah þrátt fyrir endurkomu Ricky Davis og Kevin Garnett í liðið. Utah sigraði 106-91 með 28 stig og 5 fráköst frá Mehmet Okur. Ricky Davis skoraði 32 fyrir Minnesota.

 

Síðasti leikur næturinnar var svo viðureign Boston og San Antonio. Fyrir leikinn hafði San Antonio unnið 29 leiki og Boston tapað 27.  93-89 sigur San Antonio kom því ekki á óvart en Boston gerði þó vel í því að hanga inn í leiknum allt til loka. Tim Duncan var stigahæstur hjá San Antonio, setti 21 stig gaf 5 stoðsendingar og tók 9 fráköst. Manu Ginobili og Tony Parker skoruðu báðir 15 stig. Delonte West var stigahæstur hjá Boston með 27 stig. Al Jefferson skoraði 26 og tók 14 fráköst.

 

Dóri: http://ithrottir.blog.is/

 

Fréttir
- Auglýsing -