09:53
{mosimage}
(Delonte West og LeBron James að fagna sigurkörfunni í nótt)
Fjórir leikir voru á dagskrá í NBA úrslitakeppninni í gær. Í beinni útsendingu á NBAtv vann Phoenix San Antonio örugglega 105-86 og sýndu þann leik sem þeir eru hvað þekktastir fyrir. Það var aldrei spurning hvor megin sigurinn myndi enda. Phoenix menn voru grimmir á öllum vígstöðvum og leiddu 34-13 eftir fyrsta leikhluta. Það er þó ótrúlegt að Phoenix nái að vinna þetta einvígi en ekkert lið í sögunni í NBA hefur unnið einvígi eftir að hafa lent 3-0 undir. Stigahæstur hjá Phoenix var Raja Bell með 27 stig og hjá meisturum San Antonio skoraði Tony Parker 18 stig. – Staðan 3-1 fyrir San Antonio og næsti leikur á þeirra heimavelli.
Detroit jafnaði metin gegn Philadelphiu með góðum sigri á útivelli. Lokatölur 84-93 Detroit í vil en frábær leikur í 3. leikhluta lagði gruninn að sigri en þeir unnu þann leikhluta með 18 stigum. Philadelphia var yfir í hálfleik 43-36 en náðu ekki að halda forskotinu. Stigahæstur hjá Detroit var Taushaun Prince með 23 stig en hjá heimamönnum var Thaddeus Young atkvæðamestur með 15 stig. – Staðan 2-2 og næsti leikur á heimavelli Detroit.
New Orleans vann Dalls í nótt 84-97 og eru því komnir í 3-1 í einvígi liðanna. New Orleans spilaði mjög vel og vann góðan sigur. Dallas var yfir eftir fyrsta leikhluta en gestirnir bættu síðan í og jöfnuðu og komust yfir og höfðu að lokum sigur. David West skoraði 24 fyrir New Orleans og var stigahæstur þeirra. Hjá Dallas skoraði Dirk Nowitzki manna best eða 22 stig og Jason Kidd sem átti frekar slakan leik með þrjú stig, þrjár stoðsendingar og fjögur fráköst var rekinn úr húsi þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum fyrir óíþróttamannslega villu á Jannero Pargo. – New Orleans er yfir 3-1 og næsti leikur fer fram á þeirra heimavelli.
Cleveland vann nauman sigur á Washington 97-100 á útivelli. Sigurkarfan kom þegar 5.4 sekúndur voru eftir en það var ekki LeBron James sem átti lokaskotið heldur Delonte West. Reyndar gaf James á West enda hafði hann nokkra varnarmenn á bakinu og fann West frían. Með sigrinum er Cleveland komið í ökumannssætið gegn Washington en þeir leiða 3-1. LeBron James var stigahæstur hjá Cleveland með 34 stig og Antwan Jamison var með 23 stig fyrir Washington en allir byrjunarliðsmenn liðsins skoruðu 10 stig eða meira. – Cleveland leiðri 3-1 og næsti leikur er á þeirra heimavelli.
Mynd: AP



