Engir leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt, en engu að síður hefur víða dregið til tíðinda.
Pippen og Malone í frægðarhöllina
Scottie Pippen og Karl Malone fara fyrir nýliðum þessa árs í frægðarhöll körfuboltans, en ekki bara sem framúrskarandi einstaklingar heldur einnig sem hluti af besta körfuboltaliði sem nokkurn tíma hefur verið sett saman, Draumaliðinu 1992.
Aðrir leikmenn sem komust í hóp þessa merku manna og kvenna eru Dennis Johnson, leikstjórnandinn snjalli sem vann þrjá meistaratitla með Seattle Supersonics og Boston Celtics, Gus Johnson, sem var margfaldur stjörnuleikmaður á áttunda áratugnum, WNBA stjarnan Cynthia Cooper og Brasilíumaðurinn Maciel Pereira sem vann á sínum tíma fimm Suður Ameríkutitla og ellefu Brasilíutitla með liði sínu Sao Paulo.
Þá voru Jerry Buss og Bobby Hurley Sr. teknir inn, en Buss er eigandi LA Lakers sem undir hans stjórn hafa unnið níu NBA titla og Hurley er einn sigursælasti „High-School“ þjálfari allra tíma.
Auk Draumaliðsins var Ólympíulið Bandaríkjanna 1960 tekið inn, en fyrir því magnaða liði, sem vann leiki sína með meira en 40 stigum að meðaltali, fóru verðandi goðsagnirnar Jerry West og Oscar Robertson áður en þeir hófu keppni í NBA.
Bogut í aðgerð – ekki með í úrslitakeppninni
Fáir leikmenn hafa komið jafn skemmtilega á óvart í vetur og miðherjinn Andrew Bogut, en hann hefur leitt lið Milwaukee Bucks eins og herforingi og unnið sér sess sem einn sterkasti miðherji deildarinnar. Hann verður þó ekki með í úrslitakeppninni þar sem hann meiddist illa á dögunum.
Hann braut á sér höndina, fór úr olnbogalið og tognaði á úlnlið í þessari byltu og fór í aðgerð sem afskrifar hann í bili. Bucks verða því án varnartröllsins, en geta hlakkað til næsta árs þegar hann og Michael Redd verða komnir aftur á fullt.
Jackson pungar út
Phil Jackson, þjálfari meistara LA Lakers, er sjaldan hræddur við að láta skoðanir sínar í ljós, en hann var í gær sektaður um $35.000 fyrir að gagnrýna dómara í kjölfar ósigurs gegn SA Spurs.
Coach K vill ekki Nets
Mike Krzyzewski, þjálfari Duke meistaraliðsins og landsliðs USA, hefur hvað eftir annað verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá NJ Nets, sem hyggja á upprisu í sumar. Þrátt fyrir að einn ríkasti maður heims sé að taka við liðinu, er „Coach K“ ekki sannfærður og hefur vísað öllum sögusögnum til föðurhúsanna þrátt fyrir að nýji eigandinn hafi víst boðið honum $12-15 milljónir á ári.
Kobe fær $83.5 milljónir frá Lakers
Heildarupphæðin sem Kobe Bryant fær fyrir nýjan þriggja ára samning við LA Lakers er $83.5 milljónir. Hann fær 25 milljónir fyrir fyrsta árið, 2011-12, þá 28 og loks 30.5 milljónir fyrir lokaárið þegar hann verður 35 ára.



