21:34:06
{mosimage}Zach Randolph, framherji LA Clippers var í dag dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að slá Louis Amundson frá Phoenix í andlitið í fyrsta fjórðungi viðureignar liðanna í gær. Atvikið má sjá með því að smella hér .
Fleiri stuttar fréttir hér að neðan…
Bakvörðurinn brothætti Tracy McGrady kemur ekki meira við sögu hjá Houston Rockets í ár þar sem hann mun gangast undir hnéuppskurð á næstu dögum. McGrady fór einnig í uppskurð á hné síðasta vor, en hefur ekki náð sér að fullu og misst út marga leiki í vetur, sem bætti enn frekar á ótrúleg meiðslavandræði liðsins. McGrady var með um 15 stig, 5 fráköst og fjórar stoðsendingar að meðaltali í vetur, en nú fer enn meira álag á Yao Ming og Ron Artest, sem hafa báðir glímt við minniháttar meiðsli í vetur. McGrady hefur lengi glímt við ýmiss konar meiðsli, og t.a.m. aldrei leikið heilt tímabil fyrir Houston í þau fimm ár sem hann hefur verið hjá liðinu.
Einn af sterkari varamönnum Boston Celtics, bakvörðurinn Tony Allen, verður frá keppni í um 8 vikur vegna aðgerðar á þumalfingri. Þetta mun mögulega auka líkurnar á því að Boston leiti fleiri leiða til að þétta mannskapinn með leikmannaskiptum… Eða… Getur Stephon Marbury ekki fengið sig lausan með skömmum fyrirvara?
Greyið Greg Oden er ekki heppnasti maðurinn í bransanum, en hann mun missa af næsta leik Portland í það minnsta vegna minniháttar meiðsla á hné. Það er ekki á það bætandi fyrir drenginn sem hefur því miður eytt meiri tíma á sjúkraborðinu en á vellinum eftir að hafa verið valinn með fyrsta valrétti í nýliðavalinu árið 2007.
Þá verður Chris Bosh hjá Toronto enn frá í næstu leikjum vegna meiðsla, en meðal góðra frétta úr þessum ranni er skjótur bati Andrei Kirilenko sem hristi af sér ökklameiðsli á mettíma og er kominn á ferðina hjá Utah Jazz langt á undan áætlun.
ÞJ



