Síðan 2002 hefur NBA deildin leyft dómurum að endurskoða vafaatriði í leikjum til að fá sem réttasta dómgæslu. Hægt og rólega hafa heimildir dómara til endurskoðunar rýmkast umtalsvert og nú er fátt sem þeir fá ekki að sjá aftur á sjónvarpsskjá á meðan á leiknum stendur. Þetta kallar allt á mikla bið og töf á leiknum á meðan dómarar ráða ráðum sínum um hin og þessi vafaatriði. Adam Silver hyggst taka til sinna ráða hvað þetta varðar og hefur gefið það út að miðstöð endursýningar og endurskoðunar dómgæslu verði sett á fót fyrir næstu leiktíð.
Þessi miðstöð yrði miðlæg fyrir alla leiki sem leiknir eru hverju sinni. Vissulega þarfaþing með hliðsjón af þeim leiktöfum sem verða vegna endurskoðunarinnar og markmiðið að öll vafaatriði verði útkljáð fljótt og örugglega. Úrslitakeppnin þetta árið hefur ekki farið varhluta af mistökum dómara sem hafa verið opinberuð með ítrekuðum endursýningum á meðan dómararnir fara yfir myndbandið.
Í lok fyrsta leiks Los Angeles Clippers og Golden State Warriors fór boltinn út af og dæmdur í innkast fyrir Clippers þrátt fyrir mótmæli Warriors. Reglur NBA deildarinnar segja að sé vafaatriði um innkast á síðustu tveimur mínútum fjórða hluta mega dómarar endurskoða atvikið og breyta því ef rangt reynist. Þetta var skoðað og augljóst af endursýningunni að Chris Paul slær boltann út af — en það sem sést enn betur er að brotið er á honum sem verður til þess að hann missir boltann út af. Í þessu tilviki eru dómararnir bundnir af því að þeir ætluðu aðeins að skoða hvor ætti boltann í innkasti en ekki hvort brotið hafi verið á leikmanni með boltann og því máttu þeir engu breyta nema láta Warriors fá boltann.
Svipað kom upp í leik 5 milli Clippers og Thunder þar sem Reggie Jackson nær boltanum eftir stífa pressu Thunder og keyrir að körfunni með um 12 sekúndur eftir af leiknum í stöðunni 104-102 Clippers í vil. Þar mætir honum Matt Barnes og Jackson missir boltann út af. Augljóslega af Jackson og augljóst að Clippers áttu boltann. Atriðið var hins vegar endurskoðað þar sem stutt var eftir af leiknum og þar sést að brotið var á Jackson. Samt sem áður var Oklahoma gefinn boltinn þrátt fyrir hávær mótmæli Doc Rivers sem lét hafa eftir sér að þeir hafi verið rændir sigrinum á þessu augnabliki.
Hvað mun svo þessi miðstýrða endursýningarmiðstöð gera í tilvikum sem þessum? Hvaða heimildir mun hún hafa þegar upp koma vafaatriði sem ekki eru annars til athugunar? Mun hún geta breytt dómum dómaranna á gólfinu eða verður hún bundin af því sem ákveðið er að skoða sérstaklega þó annað brot eða atriði komi í ljós við endurskoðun? Deildin hefur enn ekki gefið upp hvernig nánari útfærsla á heimildum miðstöðvarinnar verður en það er ljóst að hún verður að vera tilbúinn að svara þessum spurningum hér að framan þegar að því kemur.