10:19
{mosimage}
(Stuðningsmenn Boston brosa breitt þessa dagana)
Fjöldi leikja fór fram í NBA deildinni í nótt. Boston Celtics héldu uppteknum hætti en LA Lakers lágu gegn Miami Heat. Kobe Bryant fékk tækifæri til þess að jafna metin og koma Lakers í framlengingu en skot hans geigaði. Lokatölur í viðureign Lakers og Heat voru 89-87 Heat í vil. Dwyane Wade fór mikinn í liði Heat með 35 stig og 6 fráköst. Heat fóru á kostum í nótt og grimm vörn heimamanna hélt Lakers í sínu lægsta stigaskori í deildinni þetta árið. Hjá Lakers var Kobe Bryant með 28 stig.
Meistarar Boston Celtics unnu sinn sautjánda deildarsigur í röð í nótt þegar Chicago Bulls komu í heimsókn. Lokatölur voru 126-108 Boston í vil en heimamenn fóru algerlega á kostum í þriðja leikhluta og skoruðu 41 stig. Ray Allen var með 27 stig fyrir Boston sem gáfu alls 40 stoðsendingar í leiknum og þar var Rajon Rondo með 15 stykki. Luol Deng var stigahæstur hjá Bulls með 19 stig og 7 fráköst. Kevin Garnett komst upp í 28. sæti yfir stigahæstu menn NBA deildarinnar frá upphafi, Garnett gerði 17 stig í leiknum og er nú kominn með 20.807 stig á ferlinum og skaust þar upp fyrir gamla miðherjann David Robinson sem gerði garðinn frægan með San Antonio Spurs.
Önnur úrslit næturinnar:
Pacers 109-117 Clippers
Wizards 103-109 76ers
Hawks 115-99 Warriors
Nets 121-97 Mavericks
Knicks 81-105 Bucks
Pistons 114-120 Jazz
Grizzlies 83-112 Bobcats
Thunder 91-83 Raptors
Rockets 107-96 Kings
Nuggets 88-105 Cavaliers



