09:33
{mosimage}
(TMac fór fyrir liði Rockets í nótt)
Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þar sem Toronto, Washington og Houston voru öll 2-0 undir fyrir leiki næturinnar en bitu frá sér og lönduðu góðum sigrum. LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers fengu aldeilis yfirhalningu í höfuðborginni þegar þeir steinlágu gegn Washington Wizards 108-72.
Orðhákurinn DeShawn Stevenson gat loksins bakkað upp stóru orðin en hann gerði 19 stig fyrir Wizards í nótt en hefur helst unnið sér það til tekna á leiktíðinni að hafa sagt LeBron James ofmetnasta leikmann deildarinnar. Alls voru fimm leikmenn Wizards sem gerðu 14 stig eða meira í leiknum. Hjá Cavaliers var LeBron James einn með lífsmarki og gerði 22 stig og tók 7 fráköst. Aðrir hreinlega tóku ekki þátt í leiknum. Staðan í einvíginu er því 2-1 fyrir Cleveland.
Toronto Raptors minnkuðu muninn í 2-1 gegn Orlando Magic þegar liðin mættust í Air Canada Centre. Lokatölur leiksins voru 108-94 Toronto í vil. T.J. Ford var stigahæstur hjá heimamönnum með 21 stig og 5 fráköst en Hedo Turkoglu gerði 26 stig og tók 7 fráköst fyrir Magic. Þrátt fyrir tap hélt Dwight Howard uppteknum hætti fyrir Magic. En ein risatvennan hjá kappanum, 19 stig og 12 fráköst.
Houston Rockets mörðu góðan útisigur á Utah Jazz 92-94 þar sem Tracy McGrady gerði sjö síðustu stig Rockets í leiknum. Jazz áttu möguleika á því að komast yfir á endasprettinum en brenndu af teigskoti og urðu því að brjóta á Rockets sem kláruðu leikinn á línunni. McGrady var stigahæstur í liði Rockets með 27 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst. Deron Williams var stigahæstur í liði Jazz með 28 stig og 12 stoðsendingar.



