Þá er rétt rúmur sólarhringur þangað til keppni í NBA hefst og við höldum áfram með rýniröð Hannesar Birgis Hjálmarssonar og að þessu sinni rýnir Hannes í Norðvesturriðil Vesturdeildarinnar.
Vesturdeildin
Norðvesturriðill
Hér ræður sóknarleikur ríkjum þar sem stórskemmtileg sóknarlið Thunder, Nuggest og Timberwolves munu berjast um efstu sætin. Ég á von á að Thunder vinni riðilinn ekki síst vegna þess að hin liðin í riðlinum hafa lítið bætt sig frá í fyrra.
1. Oklahoma City Thunder
Lið með skorunarmaskínu eins og Kevin Durant og bakvörð eins og Russel Westbrook (þegar hann verður heill af hnémeiðslum) mun ekki eiga erfitt með að skora í leikjum en ef liðið ætlar að komast alla leið verður vörnin að standa sig. Varnarjaxlinn Kendrick Perkins stendur fyrir sínu og í þessu lið þarf hann lítið að reyna að skora! Annar leikmaður þekktur fyrir vörn Serge Ibaka ætti einnig að hjálpa liðinu auk þess sem Reggie Jackson steig upp í úrslitakeppninni eftir að Westbrook meiddist og framlag hans ætti að aukast frá síðasta tímabili. Thunder er mögulega liðið sem kemst alla leið í Vesturdeildinni og liðið vinnur um 60 leiki aftur í ár.
2. Minnesota Timberwolves
Timberwolves sátu ekki auðum höndum í sumar náðu í Kevin Martin frá Oklahoma og Corey Brewer frá Denver sem munu líklega mynda byrjunarliðið ásamt, Nikola Pekovic, Ricky Rubio og Kevin Love sem mun reyna að bæta sig frá síðasta tímabili þar sem hann átti við handarmeiðsli að stríða. Rick Adelman þjálfari liðsins er með reyndari þjálfurum deildarinnar og hefur nú lið í höndunum sem gæti komið á óvart. Timberwolves hefur ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2004 en ég spái að liðið bæti sig verulega í vetur og nái inn með 45 sigra á tímabilinu
3. Denver Nuggets
Nuggeets misstu Igudala til Golden State og verður erfitt fyrir liðið að fylla skarðið sem hann skilur eftir sig sérstaklega varnarlega. Ty Lawson er einn fljótasti leikstjórnandi deildarinnar og Danilo Gallinari er skemmtilegur sóknarframherji og þeir tveir ásamt Kenneth Faried og Wildon Chandler eiga eftir að bera liðið uppi. Brian Shaw er nýr þjálfari liðsins og verður fróðlegt að sjá hvort hann haldi uppi þeim hraða leikstíl sem hefur einkennt Nuggets liðið í þunna loftinu í Denver. Liðið kemur á óvart og rétt nær í úrslitakeppnina með 45 sigra.
4. Portland Trailblazers
Portland liðið er svolítið spurningarmerki reynsluboltar eins og Mo Williams og Dorell Wright voru fengnir til liðsins í sumar og tveir spennandi ungir leikmenn C.J. McCollum (nýliði – er frá í upphafi tímabils með fótamein) og Thomas Robinson auka breiddina hjá liðinu verulega. Robin Lopez (sá lakari af Brooks risunum) er kominn til liðsins og einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar, LaMarcus Aldridge, auk nýliða ársins í fyrra Damian Lillard munu eflaust tryggja stigaskorið hjá liðinu en það er ekk nóg til að koma liðinu mikið áleiðis í átt að úrslitakeppninni í ár. Portland verður á svipuðu róli og í fyrra með 34 sigra.
5. Utah Jazz
Utah liðið er eitt af þeim liðum sem virðist vera að sækjast eftir flestum kúlunum í nýliðavalinu næsta vor, þeir létu Al Jefferson, Paul Millsap, Mo Williams og Randy Foye alla frá sér og ætla að treysta á unga og óreynda leikmenn þetta tímabilið. Þetta tímabilið munu ungir og hæfileikaríkir en óreyndir leikmenn eins og Derrick Favors, Enis Kanter, Gordon Hayward, Alec Burks og Trey Burke (sem byrjar líklega ekki tímabilið vegna meiðsla) “impróvísera” í Jazz liðinu en líklega telja eigendur tímabilið árangursríkt ef liðið fær fyrsta valrétt nýliðavalsins næsta vor. Utah verður í miklum vandræðum í vetur og vinnur ekki nema um 20 leiki.
Tengt efni:



