spot_img
HomeFréttirNBA: Fá Clippers loks virðingu?

NBA: Fá Clippers loks virðingu?

17:00

{mosimage}
(Baron Davis spilar í englaborginni í vetur)

Los Angeles Clippers er lið sem er ekki oft á forsíðu íþróttafrétta fyrir afrek í NBA deildinni. Liðið hefur verið stöðugt með neðstu liðum deildarinnar undanfarin ár og verið í skugga Los Angeles Lakers í mörg ár. Oftar en ekki hefur liðið fengið slæma útreið í grínþáttum og fjölmiðlum í Los Angeles.

Clippers hafa verið í NBA deildinni síðan 1970 en þá hét liðið Buffalo Braves. Liðið flutti til San Diego árið 1978 og fékk þá nafnið San Diego Clippers. Liðið komst aldrei í úrslitakeppni NBA á 6 árum í San Diego en árið 1984 flutti liðið síðan til Los Angeles borgar.

Á þeim 24 tímabilum sem liðið hefur spilað sem Los Angeles Clippers hefur það aðeins komist í úrslitakeppnina fjórum sinnum, árin 1992,1993, 1997 og 2006. Aðeins einu sinni af þessum fjórum árum hefur liðið komist áfram úr fyrstu umferð en það var árið 2006.

Árið 1992 og 1993 voru fyrstu skiptin sem Clippers voru með betri sigurhlutfall í deildinni en Lakers. Clippers á þann heiður að eiga eitt versta tímabil í sögu NBA deildarinnar en það var tímabilið 1986-1987 þegar liðið vann aðeins 12 af 82 leikjum liðsins. Árið 2005 var í fyrsta skipti síðan 1993 sem Clippers voru með betri sigurhlutfall en Lakers. Síðan liðið var stofnað hefur það aðeins unnið 37% af leikjum sínum.

{mosimage}
(Marcus Camby er meðal nýrra andlita hjá Clippers)

Nú árið 2008 er útlitið ágætt hjá Clippers þrátt fyrir að liðið missti Elton Brand í sumar til Philadelphiu 76’ers. Clippers aðdáendur geta kætt sig við að Baron Davis og Marcus Camby komu til liðsins í sumar. Marcus Camby hefur verið valinn oftar en einu sinni varnarmaður ársins og Baron Davis átti stóran hlut í að snúa Golden State liðinu við og gera þá keppnishæfa á vesturströndinni.

Einnig er innan liðsins Al Thornton sem var einn besti nýliði síðasta árs og Clippers fengu Ricky Davis til liðsins í sumar. Með þessa leikmenn í liðinu ættu Clippers líklega að halda sér frá botni deildarinnar og vonandi að komast í úrslitakeppnina í fimmta skipti á 25 árum.

Arnar Freyr Magnússon

Myndir: AP

Fréttir
- Auglýsing -