Keppni í NBA deildinni hefst í nótt en þá eru fjórir leikir á dagskránni. NBA meistarar LA Lakers hefja titilvörnina á grannaslag gegn LA Clippers og ljóst að það verður margt um manninn í Staples Center. Ef eitthvað er þá eru meistararnir með betra lið í ár en á síðustu leiktíð þar sem þeir hafa fengið til sín harðjaxlinn Ron Artest.
Phil Jackson þjálfari Lakers sagði við fjölmiðla Vestra að það væri ekki nóg að vera með gott lið á pappírunum því leikmennirnir yrðu að ná saman en þessi magnaði þjálfari er nú á síðasta ári samningsins við Lakers.
Clippers vildu vafalítið ólmir mæta erkifjendunum með nýliðaval númer eitt upp á vasann en Blake Griffin á við meiðsli að stríða og missir því af fyrsta leik. Griffin er með brotna hnéskel og er gert ráð fyrir því að hann verði fjarri góðu gamni næstu sex vikurnar en á næstu sex vikum leika Clippers um 20 deildarleiki.
Sagan er heldur ekki með Clippers í viðureign næturinnar en Los Angeles liðin hafa deilt Staples Center sem heimavelli síðan leiktíðina 1999-2000. Síðan þá hafa Lakers betur gegn Clippers 31-9. Lakers hafa ekki tapað gegn Clippers í Staples Center síðan 12. apríl árið 2007 en þá höfðu Clippers betur 118-110.
Leikir næturinnar:
Cleveland Cavaliers – Boston Celtics
Dallas Mavericks – Washington Wizards
Portland Trail Blazers – Houston Rockets
LA Lakers – LA Clippers
Mynd: Ron Artest er mættur í borg englanna.



