spot_img
HomeFréttirNBA: Boston tapaði

NBA: Boston tapaði

06:57
{mosimage}
(Kevin Garnett lék á ný með Boston í nótt eftir meiðsli)

Alls voru 10 leikir á dagskrá í NBA deildinni í nótt og var sjónvarpsleikur NBA TV að þessu sinn viðureign Utha Jazz og Golden State Warriors.

Deron Williams skoraði 29 stig og gaf 12 stoðsendingar í 119-109 sigri Utha Jazz gegn Golden State Warriors. Utha hefur þá unnið alla leiki í viðureignum þessara liða. Carlos Boozer setti niður 16 stig og reif niður 12 kvikindi og Mehmet Okur var einnig með  tvöfalda tvennu, 16 stig og 10 fráköst. Hjá Golden State var Al Harrington með 21 stig og 5 fráköst.

Það má segja að hápunktur leiks New York Knicks og Washington Wizards
hafi verið náð þegar Zach Randolph lífgaði upp á hlutina með því að kasta vatnsglasi að samherja sínum Nate Robinson í leikhléi New York liðsins. Robinson svaraði fyrir sig með að kasta handklæði í Randolph.
Þetta virtist virka á liðið því New York vann leikinn, 113-100, í framlengingu og liðið setti félagsmet í flestum skoruðum stigum í framlengingu.
Zach Randolph var atkvæðamestur New York með 24 stig og 10 fráköst og Antwan Jamison var 20 stig og 13 fráköst fyrir Golden State.

Þreföld tvenna Lebron James dugði ekki til að færa Cleveland sigur á Houston í nótt, 93-85. Houston tókst að jafna félagsmet með því að vinna níunda leikinn í röð og getur þar af leiðandi bætt metið þegar það spilar næsta leik.
Rafer Alston skoraði 22 stig fyrir Houston og Yao Ming var með 16 stig og 14 fráköst.
Lebron var maðurinn hjá Cleveland eins og ávallt og skoraði hann 26 stig, hirti 13 fráköst, og gaf 11 stoðs.

Það er ekki oft að illa sé farið með Detroit Pistons en það var raunin í nótt þegar þeir töpuðu 103-85 fyrir Orlando Magic og 10 leikja sigurganga þeirra stöðvuð.
Detroit litu ágætlega út í byrjun leiks og átti Rasheed Wallace allsvakalegt blokk þegar hann jarðaði nýkrýndan troðslukóng NBA deildarinnar Dwight Howard í tilraun til troðslu.
Detroit lenti síðan mest 26 stigum undir og áttu aldrei séns eftir það.
Rashard Lewis var stigahæstur Orlando með 20 stig í annars jöfnu liði Orlando og Rodney Stuckey kom með 16 stig af bekknum fyrir Detroit og var stigahæstur allra.

Varamaðurinn Rashad McCants skoraði 20 stig og Al Jefferson 19 og tók 14 fráköst í 104-88 sigri Minnesota Timberwolves á Philadelphia 76ers. Minnesota batt enda á 5 leikja taphrinu og á sama tíma stöðvuðu þeir 5 leikja sigurhrinu Philadelphia.
Andre Iguodala var stigahæstur 76ers manna með 17 stig.

San Antonio Spurs lögðu Charlotte Bobcats að velli í fyrsta heimaleik Spurs í meira en þrjár vikur. Leiknum lauk 85-65 og skoraði Manu Ginobili 18 stig fyrir Spurs.
Hjá Bobcats var Raymond Felton með 19 stig.

Þær voru ekki blíðar móttökur Carmelo Anthony og Allen Iverson á Kevin Garnett, sem snúið hefur úr meiðslum, og félögum í Boston Celtics í nótt. Carmelo skoraði 29 stig og Iverson 28 í 124-118 sigri Denver á Boston. Fyrir leikinn hafði Boston sigrað 16 leiki í röð.
Hjá Celtics var Paul Pierce með 24 stig, og 7 stoðsendingar og Rajon Rondo skoraði 22.

Los Angeles Lakers vann stórsigur á Atlanta Hawks 122-93 og var sigur þeirra aldrei í hættu. Lakers voru allt í öllu í fyrri hálfleik en Atlanta náði örlítið að rétta sinn hlut í þriðja leikhluta en því miður var það of seint.
Kobe Bryant og Paul Gasol voru báðir með 23 stig fyrir Lakers en Joe Johnson skoraði mest Atlantamanna eða 18 talsins.

Lokamínúturnar í leik Memphis Grizzles og Seattle Supersonics voru jafnar og spennandi en Seattle sigraði með 7 stigum 108-101. Memphis hafði gott forskot í hálfleik. 62-48 en Seattle tók góðan sprett í þriðja leikhluta og vann hann með 16 stigum og leiddi með tveim fyrir lokaleikhlutan
Hjá Seattle var Earl Watson með 26 stig og 9 stoðsendingar en Rudy Gay skoraði 23 stig og tók 7 fráköst fyrir Memphis.

Að endingu sigraði Sacramento Kings Portalnd Trailblazers 105-94.

Mynd: AP

Emil Örn Sigurðarson – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -